11.1.2014 22:55

Laugardagur 11. 01. 14

Brynjari Níelssyni alþingismanni finnst sakfelling gegn forráðamönnum Kaupþings í svonefndur Althanímáli óréttmæt. Málið hefur ekki verið til lykta leitt fyrir hæstarétti. Í grein sem Brynjar skrifar á Pressuna segir hann meðal annars:

„Í kjölfar hruns bankanna og afleiðinga þess kom fram krafa um refsiábyrgð stjórnenda bankanna.  Reiðiviðbrögð eru skiljanleg þegar einstaklingar verða fyrir tjóni og samfélagið allt. Í þessu andrúmslofti var sett á laggirnar embætti sérstaks saksóknara til þess að rannsaka hvort stjórnendur bankanna hefðu gerst brotlegir við refsilög í störfum sínum.“

Í ræðu sem ég flutti á alþingi 15. október 2008 þar sem ég kynnti smíði laga um sérstakan saksóknara sagði ég meðal annars:

„Við núverandi aðstæður er nauðsynlegt að gera allt, sem skynsamlegt er, til að efla traust á þeim innviðum, sem eru meginstoðir réttarríkisins. Þá er afar mikilvægt að ekki sé hrapað að neinu eða gefa sér í anda nornaveiða, að lög hafi verið brotin.“

Frumvarp að lögum um sérstakan saksóknara var ekki flutt í því augnamiði að fara á svig við reglur um rannsókn og sönnunarbyrði. Fyrir setningu laganna hafði árum saman verið leitast við að grafa undan trausti á þeim sem sinntu rannsókn efnahagsbrota eins og lesa má um í bók minni Rosabaugur yfir Íslandi. Þessi aðför var ekki síður gerð á pólitískum vettvangi en í réttarsalnum og fjölmiðlum. Ég taldi einfaldlega nauðsynlegt að skapa pólitíska samstöðu um þennan þátt réttarkerfisins og það tókst með því að stofna embættið um sérstakan saksóknara. Rannsóknir á hans vegum hafa orðið umfangsmiklar. Dómarar eiga síðasta orðið.