29.6.2013 22:55

Laugardagur 29. 06. 13


Einkennilegt hve lengi er unnt að deila um sömu málin og halda að umræðurnar leiði eitthvað nýtt í ljós. Ég ætla að nefna fimm sem deilt var um þegar ég var menntamálaráðherra fyrir rúmum áratug.

1.      Námsframvinda ráðí ákvörðunum um námslán, 75% reglan er ekki ósanngjörn. Hún stóð ekki í vegi fyrir því að menn gátu lokið námi á sínum tíma. Vandinn er hvernig á að innleiða hana að nýju.


2.      Þriggja ára kennaranám. Það lá ljóst fyrir og er staðfest nú að aðsókn í kennaranám mundi minnka með því að lengja það í fimm ár. Þegar fækkun nemenda í kennaranámi vekur áhyggjur er bitið í skjaldarrendur og sagt að námið verði ekki stytt.


3.      Listamannalaun verða ekki afnumin og fráleitt að láta eins og það sé í spilunum þótt menn deili um framkvæmdina. Úthlutunakerfið er ekki nægilega gegnsætt og hefur leitt til klíkustarfsemi innan listgreina.


4.      Stytting framhaldsskólanáms í þrjú ár með lagaboði. Hvers vegna að draga úr sveigjanleikanum? Nemendur geta nú ráðið hve löngum tíma þeir verja til að ljúka framhaldsskóla. Talið um að brottfall sé meira hér en annars staðar er reist á því að borin eru saman epli og appelsínur.


5.      Stjórn ríkisútvarpsins. Ekki er til lýðræðislegri og gegnsærri aðferð við að velja stjórn ríkisstofnunar en að alþingi kjósi hana. Þeir sem eru andvígir þessari aðferð gæta annarlegra hagsmuna. Deilur um ríkisútvarpið fá nýja vídd starfi stjórn þess í umboði alþingis, þær þarfnast þeirrar víddar, þeim lýkur ekki.