5.6.2013 22:00

Miðvikudagur 05. 06. 13

Í dag ræddi ég við Kristínu Völundardóttur, forstjóra útlendingastofnunar, í þætti mínum á ÍNN. Við ræddum um málefni á verksviði stofnunarinnar. Á fyrstu mánuðum þessa árs hafa 98 sótt um hæli en voru alls 115 á síðasta ári, undanfarin þrjú ár hafa hælisleitendur á þessum fyrstu mánuðum ársins verið 30 talsins. Aukningin er þess vegna í raun gífurleg á þessu ári.

Kristín gaf enga skýringu á hvað veldur þessari breytingu. Ég dreg hins vegar þá ályktun af samtali okkar að ástæðan sé fyrst og síðast að ekki hafi verið tryggður nægilegur mannafli til að afgreiða beiðnir hælisleitenda í stofnun Kristínar og innanríkisráðuneytinu.

Þótt undarlegt sé fælir langur biðtími eftir afgreiðslu á hælisbeiðni fólk ekki frá að leggja fram beiðnina. Skattgreiðendur í ríkinu þar sem beiðnin er til afgreiðslu bera kostnað af dvöl hælisleitandans á meðan mál hans er til afgreiðslu. Kristín sagði að nær undantekningarlaust kærðu hælisleitendur úrskurð útlendingastofnunar til innanríkisráðuneytisins, nú bíða fleiri mál afgreiðslu í ráðuneytinu en hjá stofnuninni.

Um tíma fjölgaði óafgreiddum hælisumsóknum mjög í Noregi, lengri málahali kallaði í raun á fleiri umsækjendur. Til að snúa málum til betri vegar ákváðu norsk stjórnvöld að ráða 300 lögfræðinga til að úrskurða um umsóknir hælisleitenda og minnkaði bunkinn um mörg þúsund á tiltölulega skömmum tíma vegna hraðari afgreiðslu auk þess sem afgreiðsluhraðinn hafði í för með sér að hælisleitendum fækkaði.

Þegar að öllu er gáð er skynsamlegra að verja meira fé til að afgreiða hælisbeiðnir en að láta hælisleitendum fjölga jafnt og þétt, fjölgunin kallar á aukið fé til að standa undir kostnaði við dvöl fólksins á meðan mál þess er til afgreiðslu.

Ríkisvaldið getur ekki vikið sér undan að taka á þessum málum. Skipulagið ber að miða við skjóta og vandaða málsmeðferð opinberra aðila sem afgreiða mál á skömmum tíma með vísan til gegnsærra laga og alþjóðasamninga.

Næst má horfa á samtal okkar Kristínar klukkan 22.00 í kvöld síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.