3.11.2012 20:55

Laugardagur 03. 11. 12

Fréttir hafa ekki borist af afgreiðslu utanríkismálanefndar alþingis á afstöðu viðræðunefndar Íslands til 12. kafla í ESB-viðræðunum sem snýst um matvælaöryggi, heilbrigði dýra og plantna. Ætlunin var að koma afstöðunni á framfæri við ESB á meðan Danir fóru með formennsku í ráðherraráði ESB eða fyrir 1. júlí 2012. Lagt var hart að umsagnaraðilum til að það tækist.

Nú eru fjórir mánuðir liðnir og enn er málið til meðferðar í utanríkismálanefnd alþingis. Hið einkennilega er að hinar langvinnu umræður um málið í nefndinni vekja ekki áhuga fjölmiðla. Þær hljóta að stafa af ágreiningi. Á Evrópuvaktinni hef ég vakið máls á að ágreiningurinn snúist um hvort í afstöðu Íslands skuli sett krafa um varanlega undanþágu frá viðskiptum með lifandi dýr.

Um mál af þessum toga á ekki að ræða á bakvið luktar dyr utanríkismálanefndar heldur skal greina opinberlega frá um hvað ágreiningurinn snýst. Hvers vegna hvílir leynd yfir því? Telja menn að það veiki málstað Íslands gagnvart ESB? Það getur ekki verið nema fulltrúar stjórnvalda vilji ganga skemur en meirihluti nefndarinnar. Er hugsanlegt að málum sé þannig háttað?