6.12.2011

Þriðjudagur 06. 12. 11

Í dag fékk ég tækifæri til að skoða varðskipið Þór í Reykjavíkurhöfn í fylgd Sigurðar Steinars Ketilssonar skipherra og manna hans. Ég kom að ákvörðunum um smíði skipsins á sínum tíma og fór í skipasmíðastöðina í Chile þegar lagður var kjölur að skipinu vorið 2008.

Þótt ég hefði gert mér í hugarlund hvernig skipið liti út áttaði ég mig á því fyrr en ég gekk um það í dag að Þór yrði svo glæsilegur. Hvergi er um neinn íburð að ræða en allt gert af smekkvísi og hagkvæmni. Allur tækjabúnaður er sem best verður á kosið og skipið hið fjölhæfasta. Kostnaður við smíði þess var tæpar 30 milljónir evra eða innan áætlunarinnar sem gerð var í upphafi.

Smíðasaga skipsins er kapítuli út af fyrir sig því að það lifði af bankahrun á Íslandi og jarðskjálfta í Síle á smíðatímanum. Tryggingasamningurinn sem var gerður vegna smíði skipsins reyndist vel eftir jarðskjálftann þegar nauðsynlegt reyndist að fara í saumana á öllu sem gert hafði verið um borð í því eftir að flóðbylgja vegna jarðskjálftanna gekk yfir það. Tafðist afhending skipsins um eitt ár vegna þessa.

Þór skapar ekki aðeins nýja vídd í hefðbundna starfsemi landhelgisgæslunnar. Skipið eykur starfssvið gæslunnar til mikilla muna vegna þess búnaðar sem er um borð í þágu mengunarvarna og botnmælinga fyrir utan togkraft skipsins sem er mun meiri en áður hefur þekkst hér á landi. Þá er skipið vel búið til að veita aðstoð í landi. Þar er búnaður til raforkuframleiðslu sem dugar til að veita byggðarlagi orku á neyðarstundu, slökkvibúnaður er öflugur og unnt er að setja þar upp stjórnstöð á vegum almannavarna ef nauðsyn krefst.

Forseti Sile hefur ákveðið að flotinn sem á stöðina þar sem Þór var smíðaður hætti slíkri starfsemi í þágu erlendra viðskiptavina. Ísfélagið í Vestmannaeyjum á togara í smíðum hjá fyrirtæki flotans og er það líklega síðasta skipið sem þar verður smíðað fyrir útlendinga.

Skip eru ekki fjöldaframleidd þannig að hvert þeirra er sérstakt meistaraverk. Reynsla af Þór er stutt en hún er góð. Á meðan skipið er í ábyrgð framleiðenda verður fylgst vel með öllu sem betur má fara undir þeirra smásjá.