20.6.2011

Mánudagur 20. 06. 11.

ESB-aðildarsinnar eru að færa sig upp á skaftið þegar dregur að því að fulltrúar Íslands og ESB setjast að viðræðum um efnisþætti eftir að svonefndri rýnivinnu er lokið. Efnisviðræðurnar hefjast 27. júní að sögn Stefáns Hauks Jóhannessonar, formanns íslensku viðræðunefndarinnar.

Embættismenn utanríkisráðuneytisins sömdu álit meirihluta utanríkismálanefndar alþingis með það í huga að þeir hefðu frjálsar hendur við að móta samningsmarkmiðin í viðræðunum við ESB og haga viðræðunum þannig að ekki skærist í odda milli þeirra og embættismanna ESB. Þessa skoðun rökstuddi ég í pistli sem ég skrifaði hér á síðuna í dag.

Eitt af því sem vinstri-grænir í ríkisstjórn og á alþingi hafa gert til að árétta að þeir séu andvígir aðild að ESB er að segjast vera andvígir því að Ísland sæki um svonefnda IPA-styrki, það er ESB-aðlögunarstyrki. ESB-aðildarsinninn Baldur Þóhallsson hafði ekki fyrr sest á alþingi sem varamaður en hann spurði flokksbróður sinn, Össur Skarphéðinsson, um IPA-styrkina, hvernig gengi að sækja um þá. Þrátt fyrir annir í þinglok svaraði Össur á stundinni, hann hefði séð til þess að sótt hefði verið um sjö styrki. Baldur tengdi styrkina hugsanlegri ESB-aðild eins og eðlilegt er, annars gæti Össur ekki sótt um þá. Össur tók fram í svari sínu að verkefnin tengdust ekki ESB-aðildinni! Hér má lesa um þetta.

Spurning Baldurs og svar Össurar eiga að sýna embættismönnum ESB að Össur ráði ferðinni í ESB-málum innan ríkisstjórnarinnar. Líta beri á mótbárur VG sem æfingar til heimabrúks sem tefji á engan hátt fyrir því að aðildaráformin nái fram að ganga,