25.5.2010

Þriðjudagur, 25. 05. 10.


Hér má sjá þátt minn á ÍNN, þegar ég ræddi við Sigurð Kára Kristjánsson, alþingismann, um stöðu mála á alþingi.

Hér hefur verið Cristian Dan Preda, þingmaður af ESB-þinginu, Rúmeni, sem mun flytja þinginu skýrslu vegna umsóknar Íslands um aðild að ESB. Hann hefur hitt fulltrúa stjórnvalda, þingmanna og ýmsa aðra. Átti ég kost á að ræða við hann í dag og lýsa skoðun minni á stöðu mála.

Ég fór ekki leynt með álit mitt. Nefndi ég þrjú meginatriði:

1. Umsóknin er til orðin vegna þrýstings frá Samfylkingu, ekki vegna hagsmuna þjóðarinnar. Ríkisstjórnin stendur ekki öll á bak við hana. Tilgangur umsóknarinnar er ekki síst sá að koma illu af stað á heimavelli og helst að kljúfa Sjálfstæðisflokkinn. Engin pólitísk forysta er fyrir umsókninni, meira að segja utanríkisráðherra segist aðeins vera tæki alþingis í málinu.

2. Ég er hlynntur Evrópusambandinu en ekki aðild Íslands að því. Hagsmunum okkar best borgið með þeirri skipan sem nú er á samskiptum okkar og ESB. Grundvallarviðhorf og hagsmunir Íslands falla ekki saman. Atlantshafsþjóð á ekki jafnríka samleið með ríkjum innan ESB og evrópsk meginlandsþjóð.

3. Ríkisstjórnin og utanríkisráðuneytið hafa haldið þannig á aðildarmálinu með launung og ógagnsæi, að dregið hefur úr trausti á þeim, sem með stjórn málsins fara.

Lagði ég til við Cristian Dan Preda, að hann hvetti til þess, að umsókn Íslands yrði lögð í frysti og tekin þaðan eftir 10 til 20 ár, til að kanna, hvernig henni liði þá. Þar með yrði farið að fordæmi Svisslendinga. Að halda málinu áfram núna skaðaði aðeins samskipti Íslands og ESB og kynni að spilla þeim til langframa.