15.5.2010

Laugardagur, 15. 05. 10.

Á fyrsta degi hvers þingmanns í sal alþingis er lagt fyrir hann skjal til undirritunar, þar sem hann heitir því að virða stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Þar er mælt fyrir um þrískiptingu valds milli löggjafarvalds, dómsvalds og framkvæmdavalds. Er þetta grundvöllur íslenskrar stjórnskipunar. Í því felst, að hver þessara þriggja aðila hefur stjórnarskrárbundið sjálfstæði á sínu sviði. Í þessu tilliti telst ákæruvaldið til dómsvaldsins og svipar réttarstöðu ríkissaksóknara til þeirra lögkjara, sem hæstaréttardómarar njóta. Sjálfstæði hans ber löggjafaravaldinu að virða og síst af öllu á það að hlutast til um málefni, sem ríkissaksóknari hefur ákveðið að skjóta til úrskurðar dómara.

Björn Valur Gíslason, þingmaður vinstri-grænna, hefur heitið því að virða stjórnarskrána. Hann hefur engu að síður flutt tillögu til þingsályktunar um, að fallið skuli frá ákæru í máli níu manns, sem réðust á alþingi, trufluðu störf þess og ollu líkamstjóni á þingverði og lögreglu. Björn Valur brýtur gegn stjórnarskránni með tillögu sinni.

Alþingismenn ræða nú skýrslu rannsóknarnefndar alþingis á bankahruninu. Fylgst er náið með því, hvernig þeir taka á þeim ábendingum, sem í skýrslunni birtast og lúta að ábyrgð stjórnmálamanna og stjórnvalda. Atli Gíslason, þingmaður vinstri-grænna, veitir nefndinni formennsku. Hann er flokksbróðir Björns Vals, situr með honum í þingflokki og hefur þess vegna tekið þátt í umræðum um tillögu hans, áður en hún var lögð fyrir því. Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, hefur lýst stuðningi sínum við tillögu Björns Vals.

Björn Valur Gíslason hefur verið eins og dúkka búktalara, þegar Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri-grænna, vill koma einhverju á framfæri, án þess að þora eða sjá sér hag af því að prédika það sjálfur.

Þingmönnum ber að beita sama kvarða, hvenær sem þeir meta, hvort stjórnarskráin sé í heiðri höfð. Hafi Atli Gíslason samþykkt, að Björn Valur flytti tillögu sína, er hann ekki hæfur til formennsku í nefnd alþingis vegna rannsóknarskýrslunnar.