Mánudagur, 14. 09. 09.
Samkvæmt fréttum RÚV hefur utanríkisráðuneytið áform um að birta svörin við 2.500 spruningum ESB á netinu. Það eykur gegnsæi. Samkvæmt fréttinni er verið að knýja fram svör ráðuneyta um þessar mundir, svo að utanríkisráðuneytið hafi tíma til að samræma þau fyrir 16. nóvember. Erfitt er að átta sig á nauðsyn þessa hraða.
Jafnframt kemur fram, að í svörunum kunni að birtast upplýsingar um öryggis- og varnarmál, sem þurfi að fara leynt. Æskilegt væri, að þessi fullyrðing yrði skýrð betur. Ísland ræður ekki yfir eigin herafla og er því utan þess samstarfs hjá ESB - eða hvað? Til að verða gjaldgeng í samstarfi á sviði öryggismála þarf að setja löggjöf um íslenska leyniþjónusti. Íslendingar eru aðilar að Schengen-samstarfinu en öryggisgildi þess sést til dæmis af þátttökunni í Europol, Evrópulögreglunni, sem Ísland tengist á grundvelli Schengen, af því að við erum utan ESB.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á Suðurnesjum, ritaði tímabæra grein í Morgunblaðið sunnudaginn 13. september um landamæravörslu lögreglunnar og gildi Schengen-samstarfsins fyrir landamæravörsluna. Það er lífsseigur misskilningur, að Schengensamstarfið opni landið fyrir útlendingum, það eru EES-reglurnar. Án aðildar að Schengen og Frontex, landamærastofnun Evrópu, stæðum við mun verr að vígi við landamæravörslu. Sigríður Björk segir meðal annars:
„Einnig má nefna annan mikilvægan þátt í starfsemi lögreglunnar á Suðurnesjum, en það eru samskiptin við Landamærastofnun Evrópu, Frontex, sem embættið annast fyrir hönd Íslands. Samskiptin við Frontex krefjast mikillar sérþekkingar lögreglumanna í flugstöðvardeildinni. Samstarfið milli aðildarlandanna er bæði mikið og náið og krefst stöðugrar árvekni. Krefjandi þjálfun á alþjóðlegum vettvangi er því mikilvægur þáttur í störfum lögreglumannanna. Þátttaka Íslands í Schengen-samstarfinu krefst einnig sérhæfðrar þekkingar og nákvæmra vinnubragða við vegabréfaskoðun svo hindra megi för eftirlýstra glæpamanna inn í landið og annarra er óæskilegir teljast af ýmsum ástæðum.“
Með hinni nýju flugvél landhelgisgæslunnar hafa skilyrði til eftirlits á hafi tekið byltingarkenndum breytingum. Hún er fullkomnasta eftirlitsvélin með fasta viðveru á hafsvæðinu frá Grænlandi til Noregs.