Sunnudagur, 06. 09. 09.
Í fréttum sjónvarpsins var sagt, að ríkisstjórnin hefði ákveðið að leggja fram tillögur um endurupptöku á eignarskatti og erfðafjárskatti samhliða því sem tekjuskattar og virðisaukaskattur verða hækkaðir. Laun Jóhönnu Sigurðardóttur hafa verið sett sem hámarkslaun hjá ríkinu. Viðskiptum við útlönd er stjórnað með gjaldeyrishöftum. Stór hluti fyrirtækja landsins er í forsjá ríkisvaldsins. Ákvarðanafælni hefur einkennt stjórn bankakerfisins. Loks verður dregið saman í rekstri ríkis og sveitarfélaga eins og frekast er kostur.
Öllum er okkur ljóst, að gera verður ráðstafanir til að styrkja fjárhagsstöðu ríkissjóðs. Hækkun skatta er ekki rétta leiðin til þess. Lækkun skatta hefur leitt til meiri umsvifa og þar með hærri tekna ríkissjóðs. Hækkun skatta dregur úr framkvæmdavilja og þrengir fjárhagslegt svigrúm einstaklinga og fyrirtækja. Stefnan, sem lýst var í sjónvarpinu, hljómaði eins og hefndarstefna af hálfu vinstri-grænna undir forystu Steingríms J. Sigfússonar - hefndarstefna gegn þeim, sem stóðu að skattalækkunum, þrátt fyrir andmæli vinstri-grænna. Að hækka skatta núna er líkast því að sparka í liggjandi mann og halda, að það flýti fyrir bata hans.
Vilji vinstri-grænir ná sér niðri á sjálfstæðismönnum, eins og sýnist þrauta-röksemd Steingríms J. fyrir að svíkja öll helstu kosningaloforð sín, ættu þeir að láta sér nægja að ráðast á þá með skömmum og svívirðingum, en ekki láta heiftina bitna á öllum almenningi með því að hrinda fráleitri efnahagsstefnu sinni í framkvæmd.
Morgunblaðið tekur undir með Þorsteini Pálssyni í dag með kröfu um að sjálfstæðismenn leggi ríkisstjórninni lið við að hrinda ESB-aðildarstefnu hennar í framkvæmd. Næst verður þess krafist, að sjálfstæðismenn leggi Steingrími J. lið við að hækka skatta, eins og Morgunblaðið vildi, að Icesave-samningurinn færi hraðleið Steingríms J. í gegnum þingið. Nú leyfir hann sér að segja, að ákvarðanir alþingis breyti engu um samninginn en hælir sjálfum sér í sömu andrá sem þingræðissinna.