3.11.2008 20:44

Mánudagur, 03.11.08.

Mér virðist þess misskilnings gæta um hlut þeirra Valtýs Sigurðssonar ríkissaksóknara og Boga Nilssonar, fyrrverandi ríkissaksóknara, að verkefni þeirra sé að rannsaka eða stjórna rannsókn einstakra mála, sem kunna að spretta af hruni bankanna og vísað er til lögreglu.

Málsmeðferðin er tvíþætt.

Í fyrsta lagi að kortleggja stöðuna, átta sig á umfangi og stofna til tengsla við þá, sem þegar eru teknir til við að rannsaka einstök mál, án þess að um lögreglumál sé að ræða. Þetta starf er að fara af stað. Ríkissaksóknari telur, að líklega þurfi erlenda sérfræðinga til að átta sig á öllum þráðum til að heildarmyndin fáist. Hann hefur kynnt málið fyrir allsherjarnefnd alþingis.

Í öðru lagi að rannsaka einstök mál í samvinnu við lögreglu. Hugmynd mín er, að þarna komi sérstakur saksóknari til sögunnar og er frumvarp um hann á lokastigi í vinnslu á mínum vegum.

Hvert skref, sem stigið hefur verið í þessu máli, hefur verið kynnt á opinberum vettvangi. Ríkissaksóknari kynnti hugmynd um kortlagninguna, ég samþykkti hana og skýrði fyrst frá henni á alþingi. Ég lít á hana sem nauðsynlegan og tímabæran undirbúning undir sakamálarannsóknina sjálfa, verði efnt til hennar, og viðleitni til að búa skipulega í haginn fyrir hana, einfaldlega til marks um vönduð vinnubrögð.

Í bandarísku kosningabaráttunni hafa málsvarar Baracks Obama snúist harkalega til varnar, þegar þeir telja vegið að frambjóðanda sínum með áburði um eitthvað vegna tengsla við einhvern (guilt by association). Neikvæð barátta af þessu tagi hefur ekki skilað andstæðingum Obama öðru en skömm. Hvarvetna verða menn að gæta sín, þegar vegið er að heiðarleika og mannorði annarra. Þegar ég kynnti alþingi hugmyndir mínar um rannsókn réttvísinnar vegna bankahrunsins, varaði ég við nornaveiðum. Mér finnst enn ástæða til þess.

Hér segir frá því, að breskir íhaldsmenn krefja Alistair Darling sagna um vitneskju hans og aðgerðir vegna íslensku bankanna í London.

Hér er fróðleg grein um undirrót bankahrunsins, meira að segja Alan Greenspan hefur viðurkennt, að hann var of trúaður á, að fjármálamarkaðsmenn mundu sjálfir þekkja sín takmörk. Hödundurinn bendir þeim, sem vilja kynna sér hættur stjórnlausra áhættufjárfestinga, að kynna sér reynslu Íslendinga.