Kommissarar Kristrúnar
Ágúst Ólafur Ágústsson er augljós kommissar Kristrúnar í barna- og menntamálaráðuneytinu. Hann hefur ekki látið sig málefni á verksviði ráðuneytisins varða en hann kann hins vegar að nota augu og eyru í þágu Samfylkingarinnar.
Halldór Blöndal sagði í þingræðu 4. október 2005: „Ég var undrandi á því að heyra hinn unga varaformann Samfylkingarinnar hefja ræðu sína með hálfum sögum og dylgjum. En það má kannski segja að hann sé engum manni líkur. Ef ég man rétt þá tókst honum að fá 900 atkvæði á fundi þar sem 500 voru mættir.“
Ungi varaformaður Samfylkingarinnar við hlið Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur flokkformanns var enginn annar en Ágúst Ólafur Ágústsson sem þá sat á þingi en tekur nú að sér aðstoðarmennsku, fyrst hjá borgarstjóra Samfylkingarinnar, Heiðu Björgu Hilmisdóttur, í 10 vikur og nú hjá barna- og menntamálaráðherra, Guðmundi Inga Kristinssyni úr Flokki fólksins.
Sovéskir kommúnistaleiðtogar héldu úti öflugu neti kommissara, það er fulltrúa flokksins. Þeir voru hvarvetna, um borð í skipum eða á stjórnarskrifstofum. Þeir sinntu engum skyldum sem sneru að framkvæmd verkefna heldur voru augu og eyru flokksins auk þess sem þeir efndu til innrætingarfunda um ágæti flokksins og stjórnenda hans. Höfðu þeir umboð til að benda á einstaklinga sem þeir töldu veika í trúnni og hurfu þeir gjarnan sporlaust inn í gúlagið, lokaða skuggaveruleikann í Sovétríkjunum.
Kommissarakerfi er enn til hjá stjórnmálamönnum sem hneigjast til forræðishyggju. Kerfið starfar utan við lög og rétt í einræðisríkjum en á gráu svæði í lýðræðisríkjum. Trump vill til dæmis vita af sínum mönnum sem víðast í stjórnkerfinu, ekki endilega til að upplýsa sig eða efna til innrætingarfunda heldur til þess að tryggja að fyrirmæli sín séu í heiðri höfð. Honum er til dæmis kappsmál að grafa undan sjálfstæði bandaríska seðlabankans svo að hann hafi sjálfur meira að segja um vaxtaákvarðanir,
Ragnar Þór Ingólfsson, Flokki fólksins, formaður fjárlaganefndar alþingis, hefur lengi átt í stríði við seðlabankastjóra og beitir sér nú gegn honum innan stjórnarliðsins. Grefur það undan trausti í garð bankans og ákvarðana stjórnenda hans.
Spurning er hvort Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra setji eigin eftirlitsmann, kommissar, til höfuðs Ragnari Þór eins og hún gerði fljótt eftir stjórnarmyndunina þegar Heimir Már Pétursson varð forstjóri og upplýsingafulltrúi Flokks fólksins. Hann bauð sig á sínum tíma fram til varaformennsku í Samfylkingunni.
Ágúst Ólafur Ágústsson er augljós kommissar Kristrúnar í barna- og menntamálaráðuneytinu. Hann hefur ekki látið sig málefni á verksviði ráðuneytisins varða en hann kann hins vegar að nota augu og eyru í þágu Samfylkingarinnar. Þá hefur hann nú oftar en einu sinni tekið til máls opinberlega og boðað ágæti aðildar að ESB.
Líklegt er að Ágúst Ólafur hafi tekið að sér það sérstaka verkefni að innræta varaformanni Flokks fólksins, Guðmundi Inga, ágæti þess að Íslendingar gangi í ESB. Þótt Kristrún segist ætla að sinna verkefnum á heimavelli vinna ESB-aðildarsinnar að því að þétta raðirnar innan stjórnarliðsins í þágu aðildarinnar. Til þessa hefur samstaða stjórnarflokkanna strandað á afstöðu Flokks fólksins. Ágúst Ólafur ætlar að kippa því í lag með samtölum við menntamálaráðherrann.