25.8.2025 10:00

Einkunnir gerðar að blóraböggli

Umræður um menntamál eiga að vera pólitískari hér. Málaflokkurinn er ekkert einkamál uppeldis- og menntavísindamanna.

Ragnar Þór Pétursson, kennari og fyrrverandi formaður Kennarasambands Íslands, brást illa við í liðinni viku þegar Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi, kynnti umbætur í grunnskólastarfi í bænum.

Ragnar Þór sakaði Ásdísi um að ætla að eyðileggja „matferilinn“, tólið sem hefur verið í þróun hjá sérstakri stofnun síðan 2018. Á þeim tíma hefur stöðugt sigið meira á ógæfuhliðina en svar Ragnars Þórs er að það sé mælitækjunum að kenna en ekki því sem mælt er.

Í grein á Vísi 21. ágúst sagði hann:

„Inni á kontór á bæjarskrifstofunni [í Kópavogi] ætlar hann [bæjarstjórinn] að sitja haukfránn með bæði augun á teljurunum sem mæla öll mikilvæg handtök og allar hugsanir sem ná máli í skólum bæjarins. Tími slugsanna er liðinn því bæjarstjórinn boðar að loks sé stiginn fram bæjarstjórn sem raunverulega hafi áhuga á menntamálum og muni vaka yfir kennurum með foreldrasamfélagið á háhesti.“

Það er martröð kennarans að það megi mæla árangur af starfi hans og foreldrar fái upplýsingar um niðurstöðu mælinganna. Boðskapur Ragnars Þórs er að „matsferillinn“ eigi að útiloka þetta en Ásdís Kristjánsdóttir grafi undan því.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og tveggja barna móðir í Kópavogi, svaraði óvinsamlegri grein Ragnars Þórs á Vísi 22. ágúst og segir „hryggilegt að lesa skrif“ hans og háðuleg og niðrandi orð um „viðleitni Kópavogsbæjar, og bæjarstjórans, til þess að grípa til aðgerða til að snúa þróuninni við“ í málefnum grunnskólans.

Grein Þórdísar Kolbrúnar verður Ragnari Þór tilefni til að veitast að henni og Sjálfstæðisflokknum sérstaklega í langri grein á Visi í dag (25. ágúst). Óvildin í garð Sjálfstæðisflokksins villir Ragnari Þór sýn sé ætlun hans að skrifa um menntamál og gæði þeirra.

Pressefoto-keld-navntoft-kna04916-1687441565-TuYCdMattias Tesfaye, menntamálaráðherra Dana.

Umræður um menntamál eiga að vera pólitískari hér. Málaflokkurinn er ekkert einkamál uppeldis- og menntavísindamanna.

Fyrir helgi birti danska blaðið Weekendavisen langt viðtal við jafnaðarmanninn Mattias Tesfaye menntamálaráðherra þar sem hann ræddi meðal annars gildi samræmdra prófa. Ráðherrann sagði meðal annars:

„Það hörmulega er hve mörg börn yfirgefa grunnskólann óundirbúin án þess að geta lesið, skrifað og reiknað. Það veldur þeim vandræðum það sem eftir er ævinnar. Við eigum að ræða hvernig við getum komið í veg fyrir þetta. Þar tel ég að einkunnirnar geti gefið skýrar vísbendingar nógu snemma svo bæði foreldrar og nemendur viti að þeir séu ekki á réttri námsbraut.“

Blaðamaðurinn segir ráðherrann vita að þetta brjóti gegn tíðarandanum á vinstri vængnum, þar sem einkunnir hafi orðið blóraböggull alls þess sem er að í skólakerfinu. Í áraraðir hafi vinstrisinnar gagnrýnt „afrekssamfélagið“, „einkunnakapphlaupið“ og samræmdu prófin. Gagnrýnendur segi þau beinlínis skaðleg fyrir velferð barnanna og grafa undan menntunarhugsjón skóla. Ef við prófum of mikið læri börnin aðeins til prófs og bogni síðan hægt undan pressunni, sé sagt. Mattias Tesfaye menntamálaráðherra sér þetta hins vegar allt öðrum augum:

„Það er gott að búa í samfélagi með afreksfólki. Þá er líka gott að lifa í samfélagi þar sem sumir vilja vinna afrek og skapa verðmæti fyrir okkur hin.“

Þessari hugsun hefur því miður markvisst verið útrýmt í umræðum um íslensk menntamál. Hrokafullur málflutningur Ragnars Þórs er til marks um hvernig að því hefur verið staðið. Inntak hans er krafa um þöggun og afskiptaleysi í stað umræðna og aga.