19.8.2025 10:08

Baráttan gegn bílnum

Öll slagorðin vegna borgarlínu eru í anda þess áróðurs sem hér var rekinn fyrir austurþýsku Trabant-bílunum á sínum tíma undir slagorðinu: Skynsemin ræður!

Hugmyndafræðilegar ógöngur meirihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur taka á sig ýmsar myndir eftir málaflokkum. Ein birtingarmyndin er skortur á bílastæðum. Til að fækka íbúum borgarinnar sem aðhyllast ekki bíllausan lífsstíl eru nú teknar ákvarðanir um að banna bílastæðakjallara.

Þetta gerist á sama tíma og verktakar auglýsa ekki lengur stærð og ágæti íbúða í nýreistum byggingum heldur leggja þeir áherslu á að íbúðunum fylgi bílastæði í kjallara hússins. Dæmi eru um að fermetraverð á stæði í bílakjallara sé hærra en í íbúð í viðkomandi húsi.

Samhliða þessu rignir inn kvörtunum um að fyrirtæki sem sérhæfa sig í gjaldtöku á bílastæðum svífist einskis við álagningu gjaldanna og innheimtu þeirra.

Ríkishlutafélagið ISAVIA gengur á undan með góðu fordæmi með ofurháu mínutugjaldi við flugstöð Leifs Eiríkssonar og aukagjöldum breyti menn bókuðu bílnúmeri á bifreið sem ekið er fyrir myndavél inn á langtímastæði. Hvaða kostnaður leggst á ISAVIA vegna breytingarinnar?

Erlendir ferðamenn hrífast af orðinu GJALDSKYLDA á skiltum víðs vegar um landið og telja það til marks um að þeir fái tækifæri til að skoða einstaka náttúruperlu á þeim stað þar sem þeir sjá það.

Í Morgunblaðinu í dag er fjallað um þá stefnumörkun meirihlutans í borginni að ekki skuli leyfa bílakjallara í nýbyggingum á Keldnalandi. Þorvaldur Gissurarson, forstjóri ÞG Verks, segir að vegna þessarar bílastæðastefnu hafi fyrirtækið ekki áhuga á þessu landi.

Kolaport.pngInnkeyrslan í bilastæðahús við Kalkofnsveg hjá Seðlabankahúsinu. Skipulagsfrömuðir borgarinnar sjá bílastæðahús fyrir sér sem miðstöðvar lifandi þjónustu og mannamóta þegar borgarlínan gerir bíla óþarfa í hverfum borgarinnar (mynd: bílastæðasjóður).

Í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar segir: „Í nýjum hverfum sem Borgarlína mun þjóna verði almennt byggð bílastæðahús en ekki bílakjallarar.“

Rökin fyrir þessari stefnu eru meðal annars þau að bílastæðahús geti, séu þau vel hönnuð, orðið lifandi þjónustu- eða samkomustaðir fyrir íbúa og gesti, ólíkt bílakjöllurum sem séu ósýnilegir og lokaðir.

Því miður nefna höfundar þessa skipulags engin dæmi um að bílastæðahús séu hverfismiðstöðvar fyrir annað en bíla. Rökin minna hins vegar á gamlar frásagnir frá Austur-Þýskalandi þegar biðraðir eftir hvers kyns þjónustu voru dásamaðar af því að þær spornuðu gegn félagslegri einangrun.

Öll slagorðin vegna borgarlínu eru í anda þess áróðurs sem hér var rekinn fyrir austurþýsku Trabant-bílunum á sínum tíma undir slagorðinu: Skynsemin ræður!

Borgarlínan er hér í hlutverki Trabantsins, henni er ætlað að draga úr bílanotkun til lengri tíma. Á þróunarstigi til bíllauss lífsstíls mega bílar fá afnot af samnýtanlegum húsum; bílanotkun festist ekki í sessi með dýrum kjöllurum.

Skipulagsfrömuðir borgarinnar benda á að bílastæðahús hafi þann kost að þeim megi breyta eða nýta í önnur hlutverk minnki bílaumferð í framtíðinni, bílakjallara sé hins vegar nær ómögulegt að endurnýta í annað.

Reykvíkingar eru nú staddir á því stigi samkvæmt hugmyndafræði stjórnenda sinna að vegna borgarlínu beri þeim að hafna bílakjöllurum og kjósa frekar bílastæðahús vegna samfélagslegs gildis þeirra fyrir lifandi þjónustu og samkomur. Við brotthvarf bílsins megi breyta notkun húsanna.