Kristrún í vörn
Að forsætisráðherra telji nauðsynlegt að tala á þennan veg sýnir einungis varnartóninn sem einkennir málstað ríkisstjórnarinnar í samskiptum hennar við aðrar þjóðir.
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra birtist aftur í fjölmiðlum undir vikulok eftir að hafa haldið sig fjarri þeim á sama tíma og ytri aðstæður hafa þrengt að innlendum útflutningsfyrirtækjum.
Það hefur löngum verið helsta hlutverk forsætisráðherra og utanríkisráðherra Íslands að tryggja innlendum fyrirtækjum sem besta og hagstæðasta markaði erlendis. Íslenskt atvinnu- og efnahagslíf, og þar með afkoma þjóðarbúsins, á allt undir frjálsum og hindrunarlausum alþjóðaviðskiptum.
Undanfarin 15 ár, eða frá gosinu í Eyjafjallajökli, hefur ferðaþjónustu vaxið fiskur um hrygg, árið 2024 nam útflutningur 1.900 milljörðum króna. Þá var ferðaþjónusta meginstoð útflutningstekna. Hún og vöxtur hennar á allt sitt undir greiðu aðgengi að erlendu vinnuafli. Tvær aðrar megingreinar útflutnings, sjávarútvegur og álframleiðsla, stóðu einnig vel árið 2024. Nú er hins vegar gert ráð fyrir samdrætti í útflutningi í sjávarútvegi í ár.
Þá hefur kísiliðjunni á Bakka við Húsavík verið lokað vegna erfiðra viðskiptakjara. Rekstur járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga er í uppnámi vegna boðaðra verndartolla ESB. Tollar Trumps í Bandaríkjunum skapa óvissu fyrir útflytjendur á fiski, þar með sérstaklega eldislaxi. Þá hefur hagur Alcoa, eiganda álversins í Reyðarfirði, versnað verulega vegna tolladeilna stjórnvalda Bandaríkjanna og Kanada.
Í samtali við ríkisútvarpið 8. ágúst sagði Kristrún að allir fundir sem hún hefði átt síðan hún tók við embætti, og sama ætti við um utanríkisráðherra, hefðu „falið í sér mjög skýr skilaboð af okkar hálfu að standa með hagsmunum Íslands“. Forsætisráðherra áréttaði þetta með því að segja: „Ég álít allar mínar utanlandsferðir fyrst og fremst sem hagsmunagæsluferðir.“
Það eitt er sérkennilegt að ummæli af þessum toga séu talin fréttnæm, þau fela í sér svo augljósar skyldur þessara tveggja ráðherra. Að forsætisráðherra telji nauðsynlegt að tala á þennan veg sýnir einungis varnartóninn sem einkennir málstað ríkisstjórnarinnar í samskiptum hennar við aðrar þjóðir.
Í skriflegu svari til mbl.is miðvikudaginn 6. ágúst segir Kristrún að síðan í desember 2024 hafi íslensk stjórnvöld átt í samskiptum við ESB um hugsanlegar verndarráðstafanir ESB vegna innflutnings á járnblendi og kísil á Evrópusambandsmarkað.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra sagði á dögunum að viðskiptastjóri ESB hefði skýrt sér frá verndartolli gegn járnblendi og kísil 10. júlí 2025 en hún yrði að fara með upplýsingarnar sem trúnaðarmál. Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, dvaldist hér dagpart fimmtudaginn 17. júlí. Þá lá þetta mál í þagnargildi. Ræddu ráðherrar það við von der Leyen?
Forsætis- og utanríkisráðuneytin gáfu út að heimsóknin snerist um öryggis- og varnarmál. Utanríkisráðuneytið krafðist þess fyrir blaðamannafund von der Leyen og Kristrúnar að vita um hvað ætti að spyrja þær.
Norðmenn upplýstu um deiluna við ESB. Hér lögðu stjórnvöld höfuðáherslu á að þegja um hana, ekki mátti styggja von der Leyen með óþægilegum spurningum – endurnýjað ESB-aðildarferli hófst með þagnarbindinni.