6.8.2025 10:04

Sinnaskipti Sigmars

Sigmar Guðmundsson, núverandi þingflokksformaður Viðreisnar, kynnti þá stefnu flokksins í útlendingamálum og fór ekki leynt með andstöðu sína við að löggjöfin yrði hert. 

Miklar umræður urðu á alþingi um útlendingamál veturinn 2022/23 þegar Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins lagði fram breytingar á útlendingalögunum. Snerust Píratar, Samfylking og Viðreisn harkalega gegn tillögunum.

1299678Sigmar Guðmundsson, þingflokksformaður Viðreisnar.

Sigmar Guðmundsson, núverandi þingflokksformaður Viðreisnar, kynnti þá stefnu flokksins í útlendingamálum og fór ekki leynt með andstöðu sína við að löggjöfin yrði hert til að setja skorður við streymi fólks til landsins og auðvelda brottflutning þeirra sem ættu ekki rétt til dvalar í landinu.

Vegna umræðnanna um þessi mál fóru nefndarmenn í allsherjar- og menntamálanefnd þingsins í ferð til Danmerkur og Noregs til að kynna sér stjórnsýslu, starfshætti og aðbúnað hælisleitenda þar.

Af umræðum í þinginu má ráða að stjórnarandstæðingar höfðu megna skömm á því sem þeir kynntust í Danmörku. Bera ræður Sigmars Guðmundssonar þess glögg merki.

Sigmar sagði til dæmis í þingræðu 25. október að þegar talað væri um útlendingamál „út frá einhverri norrænni fyrirmynd“ yrði að hafa í huga að framkvæmdin á Norðurlöndunum væri „ótrúlega ólík á milli landa“. Þetta væri ekki einn pottur og Íslendingar „á skjön við önnur Norðurlönd“.

Taldi Sigmar hægt að segja það kinnroðalaust að Danir væru „með ótrúlega skilvirkt kerfi í því að reyna að segja nei og koma fólki sem fyrst út“. Norðmenn gerðu þetta öðruvísi. Það væri til fyrirmyndar hvernig þeir tækju sveitarfélögin inn í þetta og hvernig þeir gerðu tilraun til að aðlaga fólk þegar það væri „komið inn“.

Nú hefur Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra boðað að hún ætli að innleiða „norska leið“ í útlendingamálum án þess að útskýra í hverju hún sé frábrugðin því sem hér er gert núna. Að ráðherrann velji ekki skilvirkustu leiðina sýnir pólitískt kjarkleysi. Hvarvetna í Evrópu líta þeir sem vilja segja hingað og ekki lengra í útlendingamálum til Danmerkur sem fyrirmyndar.

Þorbjörg Sigríður hefur kannski samið um „norsku leiðina“ við þingflokksformann sinn, Sigmar Guðmundsson, gegn því að hann styddi áform hennar um að opna „brottfararstöð og greiningarstöð á landamærunum“ eins og ráðherrann orðar það í grein á Vísi þriðjudaginn 5. ágúst.

Eftir heimsóknina til Danmerkur á sínum tíma fór Sigmar hörðum orðum um brottfararstöðvarnar sem hann kynntist þar.

Í janúar 2023 spurði Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Sigmar hvort þingflokkur Viðreisnar teldi eðlilegt að Íslendingar byðu fólki sem þegar hefði hlotið vernd í Grikklandi, Ungverjalandi og Ítalíu og ætti því að brottvísa héðan að dveljast hér áfram í íslenska verndarkerfinu vegna ómannúðlegra aðstæðna í löndunum þremur.

Sigmar sagðist þeirrar skoðunar, og líklega einnig þingflokkur Viðreisnar, „að við Íslendingar [ættum] ekki og við [mættum] ekki... senda fólk í aðstæður þar sem því [væri] búin einhver ógn“. Vísaði hann þá meðal annars til þessara þriggja ESB-landa. Er þessi skoðun núna hluti af „norsku leiðinni“?