Rökþrota ESB-aðildarsinnar
Vandinn fyrir stjórnarflokkana þegar kemur að því að vinna ESB-stefnu þeirra fylgi er að ekkert íslenskt hagsmunamál knýr á um að ljúka viðræðum við Evrópusambandið til að Ísland verði eitt af aðildarríkjum þess.
Vandinn fyrir stjórnarflokkana þegar kemur að því að vinna ESB-stefnu þeirra fylgi er að ekkert íslenskt hagsmunamál knýr á um að ljúka viðræðum við Evrópusambandið til að Ísland verði eitt af aðildarríkjum þess.
Hrun fjármálakerfisins var notað sem áróðursefni fyrir aðild að ESB. Besta leiðin til þjóðinni til bjargar væri að ganga í ESB. Umsóknin var samþykkt í slíkri stemmningu hér sumarið 2009.
Miðað við áróðurinn mátti ætla að Íslendingum yrði tekið opnum örmum sem þjóð í hrakningum. Forkólfar Samfylkingarinnar spáðu að það tæki 10 til 18 mánuði að ganga frá aðildinni.
Myndin er af vefsíðu Bylgjunnar. Þarna heldur Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, á sleggju. Verkfærið er nú sýningar- eða safngripur máttlausrar ríkisstjórnar.
Leiðtogaráð ESB samþykkti 17. júní 2010 að ræða mætti aðlögun við fulltrúa Íslands. Innan við ár leið þar til allt sigldi í strand (í mars 2011). ESB vildi ekki sýna á spil sín í sjávarútvegsmálum. Þá var sú saga búin til að strandið í viðræðunum hefði orðið vegna ágreinings um makríl!
Árum saman hefur Viðreisn látið eins og allt færi á betri veg með því að kasta krónunni. Íslendingar þurfa ekki að ganga í ESB til að skipta um mynt. Að predika upptöku evru í tengslum við ESB-aðild er tal um eitthvað sem tæki áratug ef ekki áratugi að framkvæma enda á það ekki lengur upp á pallborðið.
Nú kýs formaður þingflokks Viðreisnar, Sigmar Guðmundsson, að reisa málflutning sinn vegna ESB-aðildarstefnu flokks síns á því að Sjálfstæðisflokkurinn sé andvígur áformunum um að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort sækja skuli um aðild að ESB.
Þessi áróður sannar enn málefnafátæktina. Sjálfstæðisflokkurinn kynnti fyrstur flokka þá stefnu að efnt skyldi til tveggja þjóðaratkvæðagreiðslna vegna hugsanlegrar ESB-aðildar, (1) áður en umsókn yrði lögð fram og (2) áður en kæmi að lokaákvörðun um aðild. Árið 2009 gerðu ESB-sinnar gys að þessari stefnu. Allir flokkar hafa síðan gert hana að sinni.
Tilefni ESB-deilna og umræðna núna er ekki að stjórnarflokkarnir hafi gengið til kosninga 30. nóvember 2024 með þá stefnu að af einhverri skilgreindri ástæðu vegna ótvíræðra þjóðarhagsmuna skyldi gengið til þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-aðildarviðræður á kjörtímabilinu sem nú líður. Núverandi forsætisráðherra boðaði í raun allt annað fyrir kosningarnar.
Þessi umdeilda stjórnarstefna varð til við stjórnarmyndunina í desember 2024 þegar Viðreisn undir forystu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur sá sér leik á borði. Hún kom ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir árslok 2027 inn í sáttmálann þegar hún samþykkti strandveiðar í 48 daga fyrir Flokk fólksins.
Nú hefur Viðreisn vísað 48 dögunum til föðurhúsanna, hent þeim í fangið á innviðaráðherra Flokks fólksins. Þingmenn Flokks fólksins sitja hins vegar uppi með að hafa byrjað ESB-ferlið að nýju, andstætt samþykktum flokksins.
Fyrir ESB-ákvæðinu í stjórnarsáttmálanum eru engin rök. Framkvæmdastjórn ESB ræður ferðinni og skilgreinir Ísland sem aðildarumsækjanda. Formaður utanríkismálanefndar alþingis, Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar, segir lesendum vikuritsins The Economist að Trump og Pútin valdi því að nú verði Ísland að ganga í ESB. Undarlegri verða rökin fyrir ESB-aðild Íslands ekki.