ESB-blöff Kristrúnar
Eftir að Kristrún hefur setið í rúmt hálft ár sem forsætisráðherra blasir við að hún var að „blöffa með þetta“. Hún hefur snúið hlutunum algjörlega á hvolf sem forsætisráðherra.
Sigurður Kári Kristjánsson, fyrrv. alþingismaður, birtir á Facebook-síðu sinni 29. júlí útskrift af viðtali við Kristrúnu Frostadóttur frá 27. ágúst 2024 á hlaðvarpinu Chess after Dark þar sem hún útlistar þá skoðun sína að fyrsta hlutverk sitt í stjórnmálum sé að sameina „jafnaðarfólk“ undir merkjum Samfylkingarinnar. Hún sé mjög skýr í Evrópumálum, ekki sé núna rétti tíminn til að fara í þá vegferð.
Þá segir Kristrún að hún viti bara að það sé „rosalega mikil vegferð að fara í það ferli“ inn í ESB. Það sé líka vegferð sem krefjist mikillar samstöðu hjá þjóðinni. Þjóðir gangi „ekki svo auðveldlega út úr Evrópusambandinu”.
Aðild sé „mjög stór breyting fyrir íslenskt samfélag“. Ríkisstjórn sem leggi í þessa vegferð verði að hafa „ofboðslega sterkt umboð til verka“. Það dugi ekki að vera „með einn til tvo stjórnmálaflokka sem ætla að leiða það verkefni”. Það verði að myndast þjóðarsamstaða, sprottin úr grasrótinni.
Þetta var djarflega mælt af formanni Samfylkingarinnar, yfirlýsts ESB-flokks. Kristrún gerði sér grein fyrir því og snerist strax í samtalinu gegn gagnrýni um að ekkert væri að marka þessi orð hennar og sagði:
„Ég veit að fólk heldur að ég sé að blöffa með þetta. Það er bannað að plata. Það er bannað að plata í þessu starfi. Auðvitað geta hlutir breyst en þegar ég segi að forgangsmálið núna verður efnahagslegur stöðugleiki í formi aðgerða sem við getum ráðist í strax í dag, ekki í formi alþjóðlegs samstarfs.“
Eftir að Kristrún hefur setið í rúmt hálft ár sem forsætisráðherra blasir við að hún var að „blöffa með þetta“. Hún hefur snúið hlutunum algjörlega á hvolf sem forsætisráðherra. Stóra sleggjan sem átti að nota til að slá niður verðbólgu og vexti hefur breyst í safngrip. Ursula von der Leyen notar á hinn bóginn hótanir um tolla á kísiljárn í von um að þröngva Kristrúnu inn fyrir tollmúra ESB í sömu andrá og hún fellir alla tolla niður gagnvart Trump.
Ríkisstjórnin fékk ekkert umboð til að leggja í ESB-vegferðina í kosningunum 30. nóvember 2024 – aðeins þremur mánuðum eftir að Kristrún lét ofangreind ummæli falla.
Aðalsteinn Leifsson, aðstoðarmaður utanríkisráðherra og varaþingmaður Viðreisnar, leiðir starfshóp þingflokka um varnar- og öryggismál sem Ingibjörg Davíðsdóttir, þingmaður Miðflokksins, yfirgaf (samsett mynd: mbl.is).
Boðað var snemma árs 2025 að ætlun ríkisstjórnarinnar væri að sameina þingflokka í varnar- og öryggismálum og setti Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra á fót starfshóp fulltrúa allra þingflokka 6. apríl 2025 til að vinna það verk og átti hann að skila tillögum 21. maí. Þær hafa ekki enn séð dagsins ljós og gera líklega aldrei í nafni allra þingflokka.
Ingibjörg Davíðsdóttir, þingmaður Miðflokksins og fyrrv. sendiherra, sagði sig úr starfshópnum í þinglok, 14. júlí, og gaf þessa skýringu á Facebook 29. júlí:
„Utanríkisráðherra Viðreisnar ætlar með Ísland inn í Evrópusambandið, sama hvað. Öryggis- og varnarmálin eru ekki undanskilin í þeirri áætlun ráðherrans og öll vinnan bar þess glöggt merki.“
Samstaða hefur ríkt milli þingflokka í varnar- og öryggismálum frá því að alþingi samþykkti þjóðaröryggisstefnuna 13. apríl 2016. Nú hefur utanríkisráðherra Kristrúnar tekist með aðstoð Aðalsteins Leifssonar, fyrrv. ríkissáttasemjara, að rjúfa þá samstöðu með tafaleikjum og baktjaldamakki við ESB.