Umsóknarstjórnin þegir
Hér hefur ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur strax stofnað til ESB-deilna og falið framkvæmdastjórn ESB að hafa forystu um leið og aðferð við að koma Íslendingum inn í sambandið. Það er tímabært að allir átti sig á því.
Það er skrýtið að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra 2013 til 2016 og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra 2017 til 2021, skuli vera undrandi á að ríkisstjórn Íslands taki ekki jafnhart á móti ESB vegna boðaðra tollahækkana á kísiljárni og ríkisstjórn Noregs.
Skýringin er einföld: Noregur hefur ekki stöðu umsóknarríkis gagnvart ESB. Ísland er skilgreint sem ESB-umsóknarríki af Brusselmönnum og ríkisstjórn Íslands fellst á þá niðurstöðu. Umsóknarríki andmælir ekki ákvörðunum Brusselmanna og stjórn þess kýs að þegja um óþægileg mál.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra sleppir aldrei tækifæri til að láta ljós sitt skína í fjölmiðlum. Nú þegir hún opinberlega um þetta mál.
Jens Stoltenberg fjármálaráðherra Noregs og Espen Barth Eide utanríkisráðherra Noregs ganga fram fyrir skjöldu í fjölmiðlum til varnar norskum hagsmunum. Hér birtist hins vegar frétt um að skrifstofustjóri í íslenska utanríkisráðuneytinu segi að endanleg ákvörðun hafi ekki verið tekin um þetta af hálfu Evrópusambandsins, Ísland eigi áfram í samtali við ESB.
Álfheiður Ágústsdóttir, forstjóri Elkem á Íslandi, segir á mbl.is 25. júlí:
„Það er rosaleg pólitísk stefnubreyting að láta EES-ríki ekki tilheyra innri markaði og eitthvað sem við eigum í raun eftir að ná utan um, við þurfum að berjast gegn þessu.“
Undir forystu ríkisstjórnar umsóknarríkis verður ekki barist gegn þessu frekar en öðru sem kemur frá ESB. Aðlögunarferlið hófst í upphafi þessa árs þegar Þorgerður Katrín fór til Brussel og játaðist undir að litið væri á Ísland sem umsóknarríki.
Endanleg staða Íslands í nýrri skúffu ESB var síðan staðfest opinberlega á blaðamannafundi Ursulu von der Leyen og Kristrúnar Frostadóttur á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli 17. júlí 2025. Von der Leyen sagði Ísland umsóknarríki og Kristrún samþykkti það með þögninni.
Ursula von der Leyen minntist ekki á EES-samstarfið í ávarpi á blaðamannafundinum þar sem hún kynnti viðræðuefnin við Kristrúnu. Þorgerður Katrín kaus síðan í vandræðagangi að láta eins og EES-samningurinn og framkvæmd hans hefði verið helsta umræðuefnið!
Í færslu á Facebook talar Sigmundur Davíð um ríkisstjórn Noregs sem „ESB-sinnaða“. Hvað hefur hann fyrir sér í því? Eftir að jafnaðarmaðurinn Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, hitti Friedrich Merz Þýskalandskanslara 21. júlí lagði Støre sérstaka áherslu á að Merz þekkti vel til EES-samningsins og EES er nefnt í sameiginlegri yfirlýsingu þeirra . Hvorki Støre né Erna Solberg, formaður norska Hægriflokksins, vilja stofna til innanlandsdeilna í Noregi um ESB-aðild á næstu fjórum árum, þrátt fyrir að bæði séu hlynnt ESB-aðild.
Hér hefur ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur strax stofnað til þessra deilna og falið framkvæmdastjórn ESB að hafa forystu um leið og aðferð við að koma Íslendingum inn í sambandið. Það er tímabært að allir átti sig á því.
Íslensk stjórnmál taka á sig nýjan svip þegar þetta pólitíska klofningsmál er sett á dagskrá. Fyrir kosningar var þagað um þessi áform og nú er leikið laumuspil.