22.7.2025 10:26

Saumað að utanríkisráðherra

Þorgerður Katrín vill hoppa yfir nýja aðildarumsókn og vísa til samþykktar alþingis 16. júlí 2009. Þá settist hún á hjásetugrindverkið þar sem hún situr enn. E

Fundur var haldinn í utanríkismálanefnd alþingis mánudaginn 21. júlí að ósk stjórnarandstöðunnar til að ræða stöðuna gagnvart ESB eftir heimsókn Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, hingað til lands fimmtudaginn 17. júlí.

1583599Utanrikisráðherra á fundi utanríkismálanefndar 21. júlí 2025 (mynd: mbl.is/Eyþór).

Vegna frétta af fundinum skal hér staldrað við þrjú atriði:

Í fyrsta lagi segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (ÞKG) utanríkisráðherra við mbl.is 21. júlí að aðildarumsókn Íslands að ESB frá 2009 hafi „aldrei formlega“ verið „dregin til baka“ og það liggi „alveg ljóst fyrir“. Evrópusambandið líti svo á að umsóknin sé í gildi. „Ég fagna því að við þurfum ekki að lengja það ferli ef og þegar við förum í framhaldið.“

ÞKG er fyrsti utanríkisráðherra Íslands í 10 ár sem heldur þessu fram. Yfirlýsing hennar kallar á að embættismenn utanríkisráðuneytisins og forsætisráðuneytisins leggi fram öll gögn sem lágu að baki yfirlýsingum Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra árið 2015 um að viðræðum ESB og Íslands væri slitið og Ísland væri ekki lengur í hópi umsóknarríkja.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd alþingis ætti að setja þetta mál í sérstaka rannsókn og sjá til þess að öll innlend gögn þess séu birt.

Í öðru lagi kemur í ljós að allar yfirlýsingar forsætisráðherra Kristrúnar Frostadóttur og ÞKG um að forseti framkvæmdastjórnar ESB kæmi hingað til að ræða öryggis- og varnarmál gáfu ranga mynd af viðræðunum.

Við Vísi sagði ÞKG 21. júlí: „Þessi fundur gekk ekki síst út á það að efla og styrkja EES-samninginn, auka markaðsaðgang meðal annars fyrir íslenskar sjávarafurðir.“

Á ruv.is var 21. júlí sagt frá fundinum og þar er haft eftir ÞKG: „Það sé alveg ljóst að tilgangur heimsóknar Von der Leyen hafi fyrst og fremst verið til að gæta að viðskiptahagsmunum í tengslum við EES-samninginn.“

Von der Leyen minntist ekki einu orði á samninginn í ávarpi sínu á blaðamannafundi á Keflavíkurflugvelli 17. júlí.

Hvers vegna leggur ÞKG eftir á þessa ofuráherslu á EES-samninginn?

Í þriðja lagi veit enginn hvaða spurningu ríkisstjórnin ætlar að leggja fyrir þjóðina fyrir árslok 2027. Þá er ósvarað spurningunni um breytingu á stjórnarskránni. Varla fara neinar frekari viðræður við ESB fram án þess að umboð sé til þess í stjórnarskránni?

Það er ekki unnt að draga skil á milli aðildarviðræðna og vilja stjórnvalda til að ganga í Evrópusambandið. Þess vegna fer ekki fram þjóðaratkvæðagreiðsla nema meirihluti alþingis hafi samþykkt að sótt skuli um aðild að fengnum stuðningi þjóðarinnar við þá ákvörðun. Um það snýst þetta mál allt.

ÞKG vill hoppa yfir nýja aðildarumsókn og vísa til samþykktar alþingis 16. júlí 2009. Þá settist hún á hjásetugrindverkið þar sem hún situr enn. Ekki nóg með það heldur sýnist vilji hennar standa til þess að þráðurinn verði tekinn upp þar sem Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra skildi við hann í janúar 2013. Hún býr sig meira að segja undir að fá sömu mennina til að ræða við ESB.