Leynd fyrir Brusselmenn
Alþingismenn verða að gæta þess að láta ekki múlbinda sig með kröfum um trúnað um mál sem krefjast aðeins trúnaðar vegna hættulegs laumuspils.
Það gerist æ oftar að birtar eru tilkynningar frá stjórnvöldum um að gengið hafi verið frá samkomulagi um hitt og þetta við önnur ríki án þess að nokkur umræða hafi farið fram um málið opinberlega.
Svo virðist sem ríkisstjórnin telji sig hafa heimild til að leggja mál fyrir þingnefndir, til dæmis utanríkismálanefnd, með því fororði að ekki megi ræða opinberlega um það sem fyrir stjórnvöldum vakir fyrr en þau hafa gefið um það opinbera tilkynningu.
Eftir því sem næst verður komist var þannig staðið að því að kynna þingmönnum samkomulagið við ESB sem opnar 200 mílna efnahagslögsöguna fyrir sambandinu. Ritað var undir samkomulagið 15. júlí, daginn eftir að þingstörfum lauk.
Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra og Costas Kadis sjávarútvegsstjóra Evrópusambandsins undirrituðu viljayfirlýsingu milli Íslands og ESB um aukið samstarf í málefnum hafsins og sjávarútvegi, 15. júlí 2025 (mynd:ESB).
Í ávarpi sem Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, flutti á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli 17. júlí sagði hún meðal annars:
„Loks nefni ég fiskveiðar. Einnig í þeim efnum náðum við mikilvægum áfanga fyrir nokkrum dögum. Við höfum gert nýjan samning um fiskveiðar og hafmál milli Íslands og ESB. Við undirrituðum hann í þessari viku. Hann mun styrkja samstarf okkar um stjórnun fiskveiða og um líffræðilega fjölbreytni hafsins, sameiginlegar auðlindir okkar.“
Þarna fer ekkert á milli mála. Hún veit að ESB er komið inn í lögsöguna, hefur þar afskiptarétt. Hvers vegna var þetta ekki rætt opinberlega hér áður en Hanna Katrín Friðriksson skrifaði undir skjalið? Hvaða ástæða var til að leggja málið fyrir utanríkismálanefnd í trúnaði? Banna allar opinberar umræður um það? Hvers vegna lét minnihlutinn í nefndinni bjóða sér þetta?
Ríkisstjórnin og viðkomandi ráðherra treystu sér ekki til að ræða málið opinberlega á sama tíma og vegið var að íslenskum sjávarútvegi með veiðigjaldafrumvarpinu. Stefnan um eitt skref í einu krafðist leyndar um gerð þessa samkomulags við ESB. Frásögn af því hefði styrkt þá skoðun að veiðigjaldsmálið snerist um að veikja sjávarútveginn til að auðvelda ESB-aðildina.
Á hinn bóginn lá ríkisstjórninni á að ganga frá málinu og rita undir samkomulagið til að Ursula von der Leyen gæti skreytt sig með því í ávarpi sínu hér og gagnvart þeim ESB-þjóðum sem sjá í hyllingum að geta sent skip sín til veiða á Íslandsmiðum.
Þetta er það sem koma skal á næstu vikum og mánuðum eftir að Brusselmenn telja sig hafa fengið ítök í íslensku stjórnsýslunni.
Þau sönnuðust á blaðamannafundi Von der Leyen á Keflavíkurflugvelli. Þá spurði blaðamaður Morgunblaðsins hvort forseti framkvæmdastjórnarinnar svaraði aðeins spurningum sem sendar hefðu verið inn skriflega fyrir blaðamannafundi. Hún sagðist ekki kannast við það.
Síðan hefur komið í ljós að þarna gekk íslenska utanríkisráðuneytið erinda Brusselmanna sem reyndu hve langt þeir gætu gengið með fyrirmælum sínum.
Alþingismenn verða að gæta þess að láta ekki múlbinda sig með kröfum um trúnað um mál sem krefjast aðeins trúnaðar vegna hættulegs laumuspils.