19.7.2025 11:01

Niðurlæging Flokks fólksins

Nú þegar brothættum byggðum fjölgar fær byggðamálaráðuneytið strandveiðarnar í fangið og umræður verða háværari um hve ESB veiti brothættum byggðum góða styrki.

Það fylgdi enginn rökstuðningur ákvörðun Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra um að flytja strandveiðar úr atvinnuvegaráðuneytinu í innviðaráðuneytið. Örn Pálsson, málsvari strandveiðimanna, lét eins og tignarstaða strandveiðanna hefði hækkað innan stjórnarráðsins. Hann telur kannski auðveldara að afla stuðnings við málstað skjólstæðinga sinna innan nýs ráðuneytis. Leiðin til þess sé að strjúka Eyjólfi Ármannssyni innviðaráðherra rétt.

Innviðaráðherrann er ekki síður bundinn af lögum og ákvörðunum um hámarksafla en atvinnuvegaráðherrann. Nú kemur það í hlut innviðaráðherra að flytja frumvarp til laga um 48 daga strandveiðar. Það skyldi þó ekki vera hluti af baktjaldamakki ráðherranna að næst verði vegið að fiskveiðistjórnunarkerfinu úr innviðaráðuneytinu?

1582856Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra (mbl.is/Ólafur Árdal).

Í fréttinni um breytingu á forsetaúrskurðinum var sagt að ákvörðun um hana hefði verið tekin 16. júlí þótt hún hefði ekki verið kynnt fyrr en 17. júlí. Þann dag stundaði fjölmiðlafulltrúi atvinnuvegaráðuneytisins blekkingarleik með því að láta eins og von væri á einhverjum bjarghring til strandveiðimanna. Af hverju var forsetaúrskurðurinn ekki kynntur strax? Eyjólfur Ármannsson sat hvort sem er uppi kvótalaus eins og Hanna Katrín Friðriksson.

Hækkun veiðigjaldsins verður til að stórútgerðir eflast á kostnað meðalstórra og lítilla útgerða. Stjórnendur sjávarútvegssveitarfélaga sáu þetta. Raunar blasti þetta við strax og umsagnir bárust atvinnuveganefnd alþingis um frumvarpið. Nefndin undir formennsku þingmanns Flokks fólksins, Sigurjóns Þórðarsonar, hafði allar slíkar umsagnir að engu.

Nú þegar brothættum byggðum fjölgar fær byggðamálaráðuneytið strandveiðarnar í fangið og umræður verða háværari um hve ESB veiti brothættum byggðum góða styrki. Ætlunin kann að vera að kaupa Flokk fólksins til fylgis við ESB-aðildina með ESB-styrkjum við strandveiðar. Styrkjakerfi ESB við máttlitla sjósókn til að viðhalda byggð og hefðbundnum atvinnuháttum er þaulreynt.

Eyjólfur Ármannsson sagði í stjórnarandstöðu að frumvarpið um breytingu á EES-lögunum (kennt við bókun 35) fæli í sér brot á stjórnarskránni. Það rúmaðist allt í einu innan stjórnarskrárinnar eftir að hann varð ráðherra.

Flokkur fólksins hefur sex sinnum flutt tillögu til ályktunar á þingi um að meirihluti þingsins samþykkti að draga ESB-umsóknina frá 2009 til baka. Tillagan hlaut ekki brautargengi. Talið hefur verið að viðræðunum sem hófust 2009 hafi verið slitið árið 2015. Nú situr Flokkur fólksins í ríkisstjórn með flokkum sem segja að ESB-viðræðunum hafi aldrei verið slitið. Ríkisstjórn sem fær Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, hingað til lands til að innsigla þessa skoðun.

Flokkur fólksins situr áfram í stjórninni af því að Eyjólfur Ármannsson fékk strandveiðarnar sama dag og Urslua von der Leyen var á landinu. Hann ætlar nú að sækja á mið ESB-byggðastyrkja til „efla“ íslenskan sjávarútveg.

Græðgislegri niðurlægingu Flokks fólksins er ekki lokið.