Stórútgerðir eflast
Ráðherrann hefur lagt grunn að allt annarri þróun en boðað var nema það hafi alla tíð verið markmiðið að fjölga stórútgerðunum.
„Þetta þing snerist um leiðréttingu veiðigjalda,“ segir nýr þingmaður Samfylkingarinnar, Dagur B. Eggertsson, kampakátur í grein í Morgunblaðinu í dag (16. júlí) og skammar síðan stjórnarandstöðuna fyrir öll dauðu málin.
Minnihluti alþingis hefur ekki dagskrárvald þar. Meirihlutinn ræður dagskránni. Hann á málið sem Dagur B. kallar í blekkingarskyni „leiðréttingu veiðigjalda“.
Að mati Ragnars Árnasonar, fyrrverandi prófessors í hagfræði, er þessi „leiðrétting“ einfaldlega „efnahagslegt glapræði“, þjóðin verði fátækari. Skatttekjur ríkisins rýrni innan tiltölulega fárra ára þrátt fyrir hærri veiðigjöld. Fiskvinnsla innanlands dragist saman, minni útgerðir, sérstaklega fjölskyldufyrirtæki án fiskvinnslu, séu þegar farnar að draga úr eða hætta starfsemi. „Það verður minna um fjölbreytni og meira um stórútgerðir,“ segir Ragnar við Viðskiptablað Morgunblaðsins í dag.
Þá bendir Ragnar á að nýsköpun tengd sjávarútvegi í tækni, vélbúnaði og líftækni hafi byggst á fjárhagslegum styrk útvegsins. „Þetta efnahagslega rótarskot sjávarútvegsins mun nú þurfa að þola miklu lakari rekstrarskilyrði og er líklegt til að færast til útlanda,“ segir hann.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, á ráðherrabekk í þingsalnum. Hún sætti sig við að málin sem hún hefur hrópað um liggja óafgreidd í þinglok (mynd: mbl.is/Birta Margrét).
Um þetta snerust átökin á alþingi undanfarnar vikur. Dagur B. og félagar tóku ekki mark á neinum varnaðarorðum. Það kemur ekki á óvart varðandi hann, fyrrverandi borgarstjórann, sem hrökklaðist frá eftir að hafa stofnað til vandræða í stóru og smáu vegna tillitsleysis við borgarbúa.
Reiðina vegna ráðstöfunar á bensínstöðvareitum í borginni má rekja til leynimakks Dags B. með fjármálamönnum olíufélaganna. Þar er ekki hlustað á almenna borgara. Bræður sem reka verslunina Kjötborg við Ávallagötu ræddu fyrir tveimur árum við Dag B. um að fá bílastæðakort fyrir rekstraraðila. Hann gerði ekkert í málinu. Nú segja þeir hlustað á sig og gjaldtakan verði 30 þúsund á ári í stað 500 þúsund. (Morgunblaðið 16. júlí.)
Veiðigjaldsmálið var kynnt og rekið undir fölskum fána „leiðréttingar“. Þegar vinstrisinnar gerðu í fyrra skipti áhlaup á kvótakerfið fyrir 35 árum samþykktu þeir framsal aflaheimilda sem efldi stórútgerðir. Nú er enn „leiðrétt“ og stórútgerðir eflast. Nýr skattur útrýmir litlum og meðalstórum útgerðum.
Yfirlýst markmið forsætisráðherra var að fara dýpra í vasa fjögurra eða fimm fjölskyldna og lækka á þeim risið. Ráðherrann hefur lagt grunn að allt annarri þróun en boðað var nema það hafi alla tíð verið markmiðið að fjölga stórútgerðunum.
Enginn sem hlustaði á stefnuræðu Kristrúnar Frostadóttur 10. febrúar 2025 gat látið sér til hugar koma að dómurinn um fyrsta þingið undir hennar forystu yrði að það hefði snúist um „leiðréttingu veiðigjalda“. Áherslur í ræðunni voru allt aðrar:
„En stóra einstaka velferðar- og mannréttindamálið sem ríkisstjórnin leggur fram í vor er það að við ætlum, loksins, að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Það verður stór stund og þýðingarmikil fyrir okkur sem þjóð,“ sagði ráðherrann.
Málið liggur þó enn óafgreitt af því að ríkisstjórnin taldi atlöguna að sjávarútveginum mikilvægari „en stóra einstaka velferðar- og mannréttindamálið“. Þetta er verkstjórn sem starfar eftir plani.