Macron og Ermarsundsfólkið
Það er alls ekki víst að Macron og Sir Keir nái að semja um að minnka aðdráttarafl Bretlands fyrir ólöglega innflytjendur.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti er nú í opinberri heimsókn í Bretlandi. Spurningin er hvort Macron og Sir Keir Starmer forsætisráðherra finna leið til að stöðva straum ólöglegra innflytjenda til Bretlands yfir Ermarsund. Í ár er tala þeirra komin yfir 20.000. Hún hefur aldrei verið hærri síðan þessi leið var fyrst notuð til að smygla fólki yfir sundið árið 2018.
Frakklandsforseti hefur ekki verið opinber gestur í Bretlandi fyrr en nú síðan Nicolas Sarkozy forseti kom þangað í mars 2008. Hann ávarpaði breska þingið eins og Macron gerði í gær (8. júlí). Þá sagði Sarkozy að Bretar og Frakkar vildu Evrópu (les: ESB) sem hefði stjórn á komu innflytjenda. Gavin Mortimer, dálkahöfundur The Spectator, segir að Sarkozy hafi staðið við orð sín. Árið 2007 hafi ESB talið að 163.903 sinnum hafi verið farið ólöglega inn í lönd aðildarlandanna en sú tala hafi lækkað í 104.600 árið 2009.
Mortimer minnir á að árið 2011 hefði alltaf farið á annan endann í arabaheiminum. Gaddafi hafi verið steypt af stóli í Líbíu og borgarastríð hafi hafist í Sýrlandi. Árið 2015 hafi svo Angela Merkel Þýskalandskanslari boðið alla velkomna til Þýskalands sem vildu. Á því ári komu 1,8 milljónir manna ólöglega til Evrópu, það er inn á Schenghen-svæðið.
Karl III. Bretakonungur og Emmanuel Macron Frakklandsforseti 8. júlí 2025.
Í ræðu sinni í breska þinginu í gær sagði Macron að þriðjungur þeirra sem kæmu núna ólöglega inn á svæðið gerði það í von um að komast til Bretlands.
Árið 2024 voru 239.000 ólöglegar ferðir yfir Schengen-landamæri skráðar sem var 38% samdráttur miðað við árið 2023 og lægsta tala síðan 2021. Hér er talað um ólöglegar ferðir yfir landamæri, tala einstaklinga getur verið lægri. Oftar en einu sinni kunna þeir að fara ólöglega yfir landamæri innan Schengen.
Bresku blöðin segja að Macron vilji að bresk yfirvöld grípi til þriggja ráðstafana til að minnka aðdráttarafl Bretlands: (1) Geri farandfólki erfiðara að starfa ólöglega í Bretlandi. (2) Endurskoði greiðslur félagslegra bóta til þeirra sem fara yfir Ermarsund. (3) Heimili fjölskyldusameiningu við þá sem þegar eru í Bretlandi.
Ef það sem segir um fjölskyldusameininguna yrði framkvæmt myndu Frakkar taka á móti einum ólöglegum Ermarsundsfara á móti hverjum einum sem fengi dvalarleyfi í Bretlandi til að sameinast fjölskyldu sinni.
Þótt Bretar væru í ESB gerðust þeir aldrei aðilar að Schengen-samstarfinu en þeir áttu aðild að Dublin-reglugerðinni um að Schengen-ríki geti brottvísað ólöglegum innflytjanda til þess Schengen-ríkis þar sem hann kom fyrst. Bretar sögðu skilið við Dublin-reglurnar við Brexit og Bretland fékk þar með meira aðdráttarafl en áður fyrir ólöglega innflytjendur.
Brottvísunarregla til Frakklands er talin minnka áhuga á ólöglegum ferðum yfir Ermarsund samhliða því sem franska lögreglan herðir strandeftirlit sitt.
Það er alls ekki víst að Macron og Sir Keir nái að semja um að minnka aðdráttarafl Bretlands fyrir ólöglega innflytjendur. Eitt er víst að staða Bretlands utan Schengen-samstarfsins gerir það ekki.
Sumir segja að Bretar hafi ekki gengið í Schengen vegna þess að þeir búi á eyju. Nú dregur eyjan þeirra að sér ólöglega komumenn af því hún er utan Schengen.