7.7.2025 10:18

Tveir heimar í menntamálum

OECD er í raun eini óhlutdrægi aðilinn sem hefur aðgang að gögnum um íslenska skólakerfið til að meta stöðu þess í samanburði við kerfi annarra landa og þar fáum við einfaldlega falleinkunn. 

Við búum í tveimur heimum þegar rætt er um íslensk menntamál á líðandi stundu. Annars vegar sendir menntamálaráðuneytið frá sér aðgerðaáætlanir þar sem látið er eins og allt gangi glimrandi vel á leið til frábærra markmiða árið 2030 og hins vegar birtir Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) í París úttektarskýrslu sem bregður allt öðru ljósi á stöðuna. Í menntamálum sé hún grafalvarleg.

Í skýrslu OECD sem birt var 26. júní 2025 má sjá að frá 2006 hafi árangur íslenskra nemenda í PISA lækkað um 40 stig. Afturför íslenska skólakerfisins undanfarin ár jafngildir því að grunnskólanemar hafi tapað tveimur árum af kennslu. Segir OECD að þessi afturför geti leitt til marktæks samdráttar í framleiðni og þar með lífskjörum á Íslandi.

Þá bendir OECD jafnframt á að sé einungis stuðst við skólaeinkunnir sem eina mælikvarðann við inntöku í framhaldsskóla veki það áhyggjur um hvort gætt sé sanngirni og jafnræðis við inntöku í skólana. Í umbótatillögum OECD vegur þyngst að tekið sé upp samræmt námsmat og námskrár séu einfaldaðar.

Ákvarðanir um samræmt námsmat og efni námskráa eru í höndum menntamálaráðherra. Á undanförnum árum og einkum frá 2018 hefur markvisst verið unnið að því að veikja pólitíska ábyrgð á þessum grunnþætti þjóðlífsins og í nýjustu glanstilkynningu menntamálaráðuneytisins segir: „Miðstöð menntunar og skólaþjónustu gegnir lykilhlutverki í innleiðingu aðgerða sem miðlæg þjónustustofnun á sviði menntamála.“

20250626-OECDskyrsla_EA_lowres-5-1-

Matthias Cormann, framkvæmdastjóri OECD, kynnir skýrsluna um Íaland 26. júní 2025 (mynd: stjórnarráðið).

Alþingi samþykkti nýlega að afsala meira valdi en áður til þessarar miðstöðvar og draga enn úr gildi samræms námsmats við innritun í framhaldsskóla. Miðstöðin vinnur að því að finna upp hjólið með þróun matsferils sem sagt er að breyti öllu til betri vegar í skólunum en hún leggst jafnframt harðlega gegn því að birtar séu upplýsingar sem sýni innbyrðis samanburð á stöðu skóla. Miðstöðin vill þannig koma í veg fyrir að foreldrar fái upplýsingar sem geti nýst þeim við mat á því hvernig skóli barns þeirra stendur í samanburði við aðra skóla.

OECD er í raun eini óhlutdrægi aðilinn sem hefur aðgang að gögnum um íslenska skólakerfið til að meta stöðu þess í samanburði við kerfi annarra landa og þar fáum við einfaldlega falleinkunn. Það er dapurlegt að heyra síðan forráðamenn samtaka kennara reyna að grafa undan trúverðugleika PISA-rannsóknarinnar í von um að geta gert lítið úr falleinkunninni.

Fimmtudaginn 3. júlí birtist í Morgunblaðinu úttekt á framkvæmd ályktunar alþingis um menntastefnu frá mars 2021 en 2. aðgerðaráætlun samkvæmt henni var birt 4. júlí og er hún fyrir árin 2025 til 2027. Átti hún að vera fyrir árin 2023-2027 í ráðherratíð Ásmundar Einars Daðasonar. Augljóst er að OECD telur að í þessum áætlunum sé ekki tekið á málum á þann veg að stefnt sé að viðunandi árangri fyrir nemendur. Þau orð hafa verið höfð um að áætlanir ráðuneytisins snúi meira að kerfinu sjálfu en því meginmarkmiði að bæta innra starf skólanna og þar með tryggja nemendum sem besta menntun.

Leyndarhjúpur um skólakerfi án krafna um samræmt námsmat er ekki ávísun á árangur.