3.7.2025 10:06

Veiðigjaldaráðherrann fór í golf

Ný ríkisstjórn og nýr þingmeirihluti þreytir nú prófraun. Allt bendir til að vegna reynsluleysis og þvermóðsku Kristrúnar Frostadóttur og meðráðherra hennar falli þau á þessu prófi.

Þeir sem halda uppi vörnum fyrir illa unnið og stórgallað frumvarp Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra um hækkun veiðigjalds fögnuðu mjög þegar þeir fundu gamla grein eftir Bryndísi Haraldsdóttur, þingmann Sjálfstæðisflokksins. Þar hallmælti hún málþófi árið 2019 vegna 3. orkupakkans.

Urðu umræður um þetta á Facebook miðvikudaginn 2. júlí. Bryndís svaraði og sagði stöðuna núna og 2019 gjörólíka. Nú væri stjórnarandstaðan samstiga og ekki aðeins lítill hluti hennar sem færi fyrir umræðunni:

„Við ræðum veiðigjaldafrumvarp sem var unnið án áformaskjals, án hvítbókar og fékk einungis 6 daga í samráðsgátt. Tugir umsagna bárust í nefnd, en gestakomum var hafnað og útreikningar Skattsins fengu ekki eðlilega umfjöllun nema eftir mikla eftirgangsmuni.“

Í þessum fáu setningum felst lýsing á ótrúlegum flumbrugangi við undirbúning, kynningu, framlagningu og meðferð þessa mikla máls í þingnefnd. Þegar þannig er staðið að verki og formaður þingnefndarinnar neitar að málið sé rætt ítarlegar þar kallar það óhjákvæmilega á miklar og nú langar umræður í þingsalnum.

240_F_621837715_oGLtE6HCY4BxJhZwNlhVqCgFq9MVRseQ

Meirihluti þingmanna og ráðherrann auk formanns þingnefndarinnar forðast umræður um málið. Að sögn Morgunblaðsins fór veiðigjaldaráðherrann til dæmis í golf með fjölskyldunni í stað þess að sitja þingfund. Stuðningsmenn málsins ýta undir hneykslun á umræðum um málið í þingsalnum, málþófinu.

Látið er í veðri vaka að málþóf þekkist hvergi á þjóðþingum. Öldungadeild Bandaríkjaþings er frægasta dæmið um þingdeild þar sem málþóf hefur tíðkast allt frá því að fyrst var fundað í henni, 1789. Það var þó ekki fyrr en 1917 sem samþykkt var að tveir þriðju manna í deildinni gætu bundið enda á umræður með atkvæði sínu. Árið 1975 var hlutfallið lækkað í þrjá fimmtu, 60 þingmenn af 100 í öldungardeildinni núna. Aukna meirihlutans er krafist til að binda enda á umræður um lagafrumvörp. Fjalli deildin um skipan manna í embætti dugir einfaldur meirihluti.

Vegna þess hve mikið og hættulegt vald er talið fylgja beitingu þessa ákvæðis er það kallað nuclear option eða kjarnorkuákvæðið. Hættan af beitingu þess er sú að allt umturnist í deildinni. Að átökunum loknum ríki hvorki nægur friður né jafnvægi sem þarf til vandaðra vinnubragða og skynsamlegrar niðurstöðu.

Réttinum til ótakmarkaðra umræðna og þar með málþófs er lýst þannig í umsögnum um starfshætti bandarísku öldungadeildarinnar að hann sé lykilatriði þegar litið sé til einstaks hlutverks öldungadeildarinnar í bandaríska stjórnmálakerfinu.

Á alþingi er réttur til málþófs og einnig til að stöðva það með einföldum meirihluta. Ný ríkisstjórn og nýr þingmeirihluti þreytir nú prófraun. Allt bendir til að vegna reynsluleysis og þvermóðsku Kristrúnar Frostadóttur og meðráðherra hennar falli þau á þessu prófi.

Minnihlutinn náði undirtökunum á þinginu fyrir nokkrum vikum. Hafi meirihlutinn íhugað að beita kjarnorkuákvæðinu í þingsköpum hefur tækið runnið úr greipum hans vegna hiks. Þá er ekkert annað eftir en að semja og við það ræður meirihlutinn ekki heldur. Það ríkir verk- og stjórnleysi.