Veiðigjaldið í nefnd
Kristrún ætti að bjóða Sigurjóni, nefndarformanni sínum og þingmeirihlutans, upp í dans og kanna hvort hún geti fengið hann ofan af andstöðu sinni við að kalla saman fund í nefndinni.
Þegar rætt er um þingstörf í fréttum ríkisútvarpsins núna er jafnan tekið fram hve lengi hafi verið rætt um veiðigjaldsfrumvarpið á alþingi. Taldar eru klukkustundirnar og lengd umræðnanna borin saman við umræður um önnur mál.
Þetta er í sjálfu sér forvitnileg tölfræði. Henni er augljóslega ætlað að sanna fyrir hlustendum að ræðurnar um málið séu tímasóun og þinginu til niðurlægingar. Umræðurnar um veiðigjaldsmálið hafa þó síður en svo orðið til einskis. Það skýrist betur dag frá degi hve illa frumvarpið er unnið og hve fráleitt er að vísa því til þriðju umræðu án þess að taka það að nýju til meðferðar í atvinnuveganefnd þingsins.
Þingmenn nýta sér lögbundinn rétt sinn með ræðunum. Kröfur utan þings um að þeir afsali sér þessum rétti eru illa ígrundar. Innan þings getur meirihlutinn beitt valdi og bundið enda á umræðurnar. Afleiðingar þess eru ófyrirséðar.
Skjáskot af Morgunblaðinu 2. júlí 2925.
Væri eðlilega að málum staðið hefði formaður atvinnuveganefndar þingsins átt að hafa frumkvæði að meira og ítarlegra samráði þingmanna og sérfræðinga á vettvangi nefndarinnar.
Illu heilli er Sigurjón Þórðarson, Flokki fólksins, formaður atvinnuveganefndar. Hann vill böðlast áfram og er þingmanna harðorðastur í garð stjórnarandstöðunnar.
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra lét svo lítið þriðjudaginn 1. júlí að „taka samtöl“ í þinghúsinu. Hún segir í Morgunblaðinu í dag (2. júlí) að það þurfi tvo í tangó og þess vegna náist ekki samkomulag um að hefja sumarhlé alþingis.
Kristrún ætti að bjóða Sigurjóni, nefndarformanni sínum og þingmeirihlutans, upp í dans og kanna hvort hún geti fengið hann ofan af andstöðu sinni við að kalla saman fund í nefndinni og endurskoða veiðigjaldsfrumvarpið í ljósi gagna sem borist hafa frá því að nefndin hittist síðast.
Þá ætti Anna Lára Jónsdóttir ( Samfylkingu) að kalla saman fund í efnahags- og viðskiptanefnd þingsins til að sannreyna með sérfræðingum hver séu nú þegar samdráttaráhrif í efnahagslífinu vegna veiðigjaldsfrumvarpsins.
Í forystugrein Morgunblaðsins í dag er vakin athygli á samantekt samtaka skattgreiðenda sem sýnir að hlutabréfaverð í sjávarútvegsfyrirtækjunum þremur sem skráð eru í Kauphöll Íslands – Brimi, Ísfélaginu og Síldarvinnslunni – hafi lækkað mikið og þar með hafi hluthafar tapað tugum milljarða vegna áformanna um að stórhækka veiðigjöld. Lífeyrissjóðir eru meðal eigenda þessara hlutabréfa. Niðurstaðan er: „Almenningur á Íslandi, sem greitt hefur í lífeyrissjóði, hafi því tapað alls um 22 milljörðum króna frá áramótum.“
Í forystugreininni er minnt á þau dæmalausu ummæli Kristrúnar Frostadóttur í Kastljósi að meginmarkmið veiðigjaldsfrumvarpsins væri að vega að fjárhag fjögurra eða fimm fjölskyldna í landinu.
Morgunblaðið bendir á að nú þegar hafi frumvarpið eitt valdið 225 þúsundum heimila og lífeyrissjóðum þeirra 22 milljarða kr. tjóni. Segir blaðið að lífeyrissjóðirnir geti ekki látið þessa aðför stjórnvalda að eignum og réttindum sjóðfélaga þeirra yfir sig ganga. Þeir geti „ekki lengur staðið þöglir hjá“.