7.7.2020 10:09

Norræn skýrsla birt

Sú skoðun meira en 90% Íslendinga er rétt að í utanríkismálum skiptir Norðurlandasamstarfið okkur mestu. Þess vegna er brýnt að efla það og styrkja á sem flestum sviðum.

Í gær (6. júlí) birti danska utanríkisráðuneytið fréttatilkynningu um að norrænu utanríkisráðherrarnir hefðu fengið afhenta skýrslu mína með tillögum um sameiginleg norræn verkefni á sviði loftslagsmála, fjölþátta ógna og netvarna auk fjölþjóðasamstarfs innan ramma alþjóðalaga.

Skýrslan er rúmlega 12.000 orð á 31 bls. Tillögurnar eru 14. Vinna við skýrsluna hófst eftir að ég fékk erindisbréfið frá Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra sem er dagsett 2. desember 2019. Fyrir mig var lagt að ljúka verkefninu um mitt sumar 2020 og er skiladagur minn í skýrslunni miðvikudagur 1. júlí. Föstudaginn 3. júlí hafði skýrslan verið brotin í endanlegt form og sendi ég þá skilabréf til ráðherranna og afhenti hana Guðlaugi Þór eins og sjá má á myndinni sem fylgir. Utanríkisráðuneytið samdi fréttatilkynningusem það sendi frá sér mánudaginn 6. júlí, sama dag og tilkynning danska utanríkisráðuneytisins birtist.

BjBjGThThGuðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra tekur við norrænu skýrslunni,

Utanríkisráðuneytið tilnefndi Jónu Sólveigu Elínardóttur deildarstjóra til samstarfs við mig um gerð skýrslunnar. Við fórum til höfuðborga allra Norðurlandanna og hittum stjórnmálamenn, embættismenn og fræðimenn. Fyrst fórum við til Oslóar 13. janúar 2020 og síðast til Helsinki í byrjun mars en þegar við snerum heim þaðan fimmtudaginn 5. mars 2020 var skuggi COVID-19-faraldursins orðinn sýnilegur. Við hvorki heilsuðum né kvöddum finnska þingmenn með handabandi í þinghúsinu að morgni brottfarardagsins. Á Helsinki-flugvelli var starfsemin að lamast og fáir voru í Icelandair-vélinni.

Hefðum við ekki náð að fara til allra höfuðborganna og ræða við fólk þar hefðu allar tímasetningar vegna skýrslugerðarinnar raskast.

Hvert ráðuneyti landanna fimm tilnefndi tvo fulltrúa í ráðgjafarhóp vegna skýrslugerðarinnar. Höfðum við boðað þennan hóp til fundar í Reykholti í Borgarfirði um miðjan maí. Frá þeim fundi var horfið en alls efndum við til fjögurra, árangursríkra fjarfunda með hópnum. Reyndist sú aðferð vel og skilaði því sem að var stefnt.

Í því felst áskorun að taka að sér verkefni sem þetta. Raunar er líklega einstætt að fimm sjálfstæð ríki feli einum manni að gera skýrslu með óskuldbinandi tillögum um sameiginleg framtíðarverkefni ríkjanna í utanríkis- og öryggismálum. Þetta er í annað sinn sem norrænu utanríkisráðherrarnir taka ákvörðun um slíka skýrslugerð. Thorvald Stoltenberg, fyrrv. ráðherra í Noregi, skilaði sambærilegu verki árið 2009.

Það er til marks um að Stoltenberg-skýrslan þótti gagnleg að leikurinn skuli endurtekinn nú. Þakklæti fyrir þann trúnað sem mér var sýndur er mér ofarlega i huga þegar ég lít yfir tímann frá 2. desember 2019 sem að verulegu leyti hefur verið helgaður þessu verkefni.

Í skýrslunni er aðeins að finna lítið brot alls þess fróðleiks sem ég nálgaðist við texta- og tillögugerðina. Trú mín á gildi norræns samstarfs stórefldist við þetta. Sú skoðun meira en 90% Íslendinga er rétt að í utanríkismálum skiptir Norðurlandasamstarfið okkur mestu. Þess vegna er brýnt að efla það og styrkja á sem flestum sviðum.