Neikvæðni Viðreisnar magnast
Þingmaður Viðreisnar gaf sér heimasmíðaðar forsendur til að geta haldið neikvæða spunanum um söluna á Íslandsbanka áfram.
Stjórnendur Kastljóss ríkissjónvarpsins skildu markvisst eftir þá hugmynd hjá áhorfendum að skýrsla ríkisendurskoðunar um sölu hlutar ríkisins í Íslandsbanka 22. mars 2022 hefði að geyma ásakanir um lögbrot fjármála- og efnahagsráðherra og þess vegna væri réttmætt að velta fyrir sér hvort hann ætti ekki að víkja úr embætti.
Ekkert er um þetta í skýrslunni og ummæli Kastljóssjórnendanna má auðveldlega fella undir það sem á íslensku er kallað upplýsingafalsanir þegar vísað er til enska orðsins disinformation.
Upplýsingafalsanir eru síðan hluti af því sem flokkað er sem fjölþátta átök (e. hybrid warfare). Þær setja æ meiri svip á opin, lýðræðisleg samfélög;: annars vegar eru þeir sem nota atvik til að spinna sögu sem reist er á ímyndun þeirra sjálfra og hins vegar þeir sem vilja halda í jarðtenginguna en ekki láta stjórnast af svartsýnni ímyndun.
Nýr Landspítali rís - þingmaður Viðreisnar segir Landspítalann hrynja árið 2023 þar sem Íslandsbanki verði ekki seldur. Mynd tekinn 14. nóvember 2022.
Banksölumálið má einnig skoða í þessu ljósi.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, Viðreisn, kvaddi sér hljóðs undir dagskrárliðnum óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra mánudaginn 21. nóvember og spurði framsóknarmanninn Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hvað gerðist ef ekki fengjust 76 milljarðar króna fyrir sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka á árinu 2023, í fjárlagafrumvarpinu væri gert ráð fyrir þeim tekjum.
Þorbjörg Sigríður gaf sér þessar forsendur: (a) ekki verður selt meira af hlutabréfum í bankanum nema lögum um hvernig staðið verði að sölunni sé breytt; (b) kannski verður fasteignasalinn rekinn en samt á að selja húsið; (c) tafir á sölunni hafa áhrif á skuldastöðu ríkissjóðs og vaxtagjöld hans; (d) geta ríkisstjórnarinnar til að fjármagna heilbrigðiskerfið minnkar og (e) þjónusta Landspítalans skerðist, biðlistar lengjast.
Heilbrigðisráðherra svaraði að ekkert útilokaði að ríkisstjórnin héldi sig við stefnu sína, lyki sölunni á Íslandsbanka. Ríkisstjórnin væri einhuga um stefnumál sín og um að „klára þetta mál“. Heilbrigðisráðherrann lauk máli sínu á þessum orðum:
„Við verðum að vanda okkur með næsta skref og velja rétt fyrirkomulag á lokahnykk þessarar sölu.“
Þingmaður Viðreisnar gaf sér heimasmíðaðar forsendur til að geta haldið neikvæða spunanum um söluna á Íslandsbanka áfram. Fyrsta forsendan, að ríkisstjórnin næði ekki saman um breytt fyrirkomulag á sölunni, var hrein óskhyggja stjórnarandstöðuþingmanns sem spáði hruni heilbrigðiskerfisins. Hlutabréf í banka eru ekki seld, Landspítalanum er lokað. Þetta var boðskapurinn.
Nú hefði mátt ætla að ábyrgur þingmaður sem kæmist að þessari niðurstöðu legði sig fram um að útiloka að neyðarástandið skapaðist, til dæmis með tillögu um breytingar á fyrirkomulagi við bankasöluna. Ekkert slíkt vakti þó fyrir Viðreisnarþingmanninum. Það hlakkaði á hinn bóginn í Þorbjörgu Sigríði yfir að þetta ástand kynni að skapast. Hvers virði er slík stjórnarandstaða?