Neikvæð ESB-Viðreisn
Í stað þess að leggja rækt við samstarfið sem við eigum við ESB með EES-samningnum og Schengen-samkomulaginu sjá þeir sem vilja aðild Íslands að ESB sér hag af því að tala illa um þetta samstarf.
Danir tóku afdráttarlausa afstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu miðvikudaginn 1. júní og ákváðu að falla frá um 30 ára gömlum fyrirvara um varnarmál í aðild sinni að ESB. Fyrirvarinn var einn af nokkrum sem þeir settu vegna gildistöku Maastricht-sáttmálans um stjórnkerfi ESB sem var undirritaður í hollensku borginni Maastricht 7. nóvember 1992 og tók gildi ári síðar, 1. nóvember 1993. Fól hann meðal annars í sér tímaáætlun um innleiðingu evrunnar og yfirlýsingu um samvinnu í utanríkis- og öryggismálum.
Danir höfnuðu ekki aðeins varnarsamstarfinu heldur einnig evrunni. Árið 2000 kolféll tillaga um að taka upp evru í danskri þjóðaratkvæðagreiðslu. Raunar hefur stuðningur við ESB-málefni aldrei verið meiri í danskri þjóðaratkvæðagreiðslu en einmitt nú (66,9% já gegn 33,1% nei). Danir eru enn utan evru-samstarfsins og eiga ekki aðild að lögreglu- og réttarfarsamstarfinu innan ESB. Við Íslendingar tökum á hinn bóginn þátt í því samstarfi með aðild að Schengen-samkomulaginu. Við eigum aðild að Europol, evrópsku lögreglunni og höfum þar tengifulltrúa, og Eurojust, samstarfi saksóknara, án þess að hafa nýtt okkur það með tengifulltrúa.
Í stað þess að leggja rækt við samstarfið sem við eigum við ESB með EES-samningnum og Schengen-samkomulaginu sjá þeir sem vilja aðild Íslands að ESB sér hag af því að tala illa um þetta samstarf.
Þetta á einkum við um þingmenn Samfylkingarinnar og Viðreisnar. Þeir ganga til dæmis hiklaust í lið með öfgamönnum í útlendingamálum og tala þar í andstöðu við meginsjónarmið sem gilda innan ESB í afstöðunni til þeirra sem dveljast ólöglega í einhverju landi á grundvelli lögmætra ákvarðana stjórnvalda viðkomandi lands.
Að Danir verði virkir þátttakendur í ESB-varnarsamstarfinu veikir síður en svo öryggi Íslands. Það verður hugsanlega til þess að ESB láti sig öryggi á Norður-Atlantshafi meira varða.
Þingmennirnir mega ekki heyra minnst á að farið sé að fordæmi danskra stjórnvalda við mótun stefnu í útlendingamálum en stíga svo á stokk og telja danska niðurstöðu um brottfall varnarmálafyrirvara þjóna málstað sínum. Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, fór á alþingi 2. júní með gamla sönginn um að kannski gengju Norðmenn í ESB og við yrðum ein og yfirgefin. Þá skaðaði það öryggi Íslands að vera utan ESB af því að norrænu ESB-þjóðirnar Finnar og Svíar væru á leið í NATO.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sagði okkur réttilega í góðum höndum sem „stofnaðilar að langöflugasta öryggis- og varnarsamstarfi í heimi“ og „með varnarsamning við öflugasta ríki heims á því sviði, sem eru Bandaríkin“. Ráðherrann lét ógetið aðildar okkar að norræna varnarsamstarfinu, NORDEFCO, sem aðeins styrkist við NATO-aðild Finna og Svía, og JEF-samstarfinu undir forystu Breta.
Ömurlegt er að sjá ESB-aðildarsinna teja það þjóna málstað sínum að tala niður aðild þjóðarinnar að öflugasta varnarsamstarfi sögunnar eins og þeir tala stöðugt niður EES- og Schengen-samstarfið. Hvernig væri að leggja rækt við það sem við njótum? Gera þar betur frekar en að tala sífellt um eitthvað annað sem ekki verður?