31.10.2023 10:12

Nei til EU tapar orkupakkamálinu í hæstarétti

Efnisleg niðurstaða hæstaréttar Noregs staðfestir það sem fylgismenn þriðja orkupakkans sögðu hér á landi í langvinnum deilum um málið – fullveldinu er alls ekki ógnað.

Andstæðingar þriðja orkupakkans svonefnda hér á landi sögðu þegar þeir urðu undir í öllum umræðum um hættuna af honum hér á landi að menn skyldu bara bíða eftir því sem gerðist í málaferlum samtakanna Nei til EU í Noregi. Þar kæmi örugglega í ljós að um mikið framsal á valdi til yfirþjóðlegrar ESB-stofnunar, ACER, hefði verið að ræða með pakkanum og þess vegna hefði norska stórþingið staðið vitlaust að afgreiðslu hans. Hæstiréttur Noregs ætti síðasta orðið um það.

Resize-norÚr hæstarétti Noregs – 17 dómarar af 20 dæmdu í þriðja orkupakkamálinu.

Fullskipaður hæstiréttur í Noregi, 17 dómarar af 20, birti einróma dóm sinn í málinu í dag, þriðjudaginn 31. október 2023. Dómararnir töldu stórþingið hafa staðið rétt að afgreiðslu málsins, það hafi verið „lítið inngrip“ og þess vegna hefði einfaldur meirihluti þingmanna dugað til að samþykkja þriðja orkupakkann eða aðild að ACER eins og Norðmenn kalla þetta mál.

Í dómi hæstaréttar segir að ACER/ESA geti ekki tekið ákvörðun um hvort lagðir skuli nýir sæstrengir til að flytja raforku frá Noregi og geti ekki heldur bannað norskum yfirvöldum að setja skilyrði fyrir útflutningi á orku. Þá geti ACER/ESA ekki heldur ákveðið raforkuverð. Nei til EU fullyrti að ákvarðanir hjá ACER/ESA gætu haft óbein áhrif á raforkuverð. Hæstiréttur telur að sé unnt að tala um slík áhrif séu þau aðeins smávægileg í ljósi þess sem óhjákvæmilega fylgir því að að sæstrengir hafi verið lagðir og tengist evrópska orkumarkaðnum sem Noregur er hluti af hvað sem öðru líði. Raforkuverð mótist af mörgum þáttum eins og flutningsgetu, veðurfari og verði á annarri orku.

Niðurstaðan er að þótt stórþingið hafi með lögfestingu árið 2018 framselt vald í mikilvægum málaflokki – orkumálunum – hafi alþjóðlegar stofnanir ekki fengið umboð til að taka ákvarðanir sem hafi mikla samfélagslega þýðingu í Noregi. Hæstiréttur segir þess vegna að valdaframsalið sé lite inngripende, og at Stortinget ikke brøt Grunnloven i 2018 – lítið inngrip og að stórþingið braut ekki stjórnarskrána árið 2018.

Eftir að Nei til EU hafði tapað málinu á tveimur dómstigum var talið næsta augljóst hver úrslitin yrðu í hæstarétti. Á hinn bóginn vakti málið lögfræðilega og stjórnmálalega athygli vegna spurninga um hvort hæstiréttur teldi sér fært að ganga lengra en að fjalla um efni málsins og segja þingmönnum fyrir verkum um túlkun á þingsköpum. Þarna getur verið erfitt að gæta hárfíns jafnvægis segja fræðimenn. Dómararnir héldu sig við efni málsins.

Efnislega niðurstaðan staðfestir það sem fylgismenn þriðja orkupakkans sögðu hér á landi í langvinnum deilum um málið - fullveldinu er alls ekki ógnað. Samþykkt orkupakkans skyldar ekki íslenska ríkið til að fara að erlendum fyrirmælum um lagningu sæstrengs. Það er alfarið á forræði Íslendinga. Þá geta íslensk yfirvöld sett eigin skilyrði fyrir útflutningi á orku. Loks er ljóst að verð á sæstrengjaorku ræðst aðeins smávægilega af óbeinum áhrifum af ákvörðununum ACER/ESA.

Í stuttu máli stendur ekkert efnislega eftir af stóryrtum fullyrðingum þriðja orkupakkaandstæðinganna hér á árunum 2018/19. Upphlaupið verður óskiljanlegra eftir því sem lengra líður frá því.