28.8.2018 10:01

Misskilinn metingur vegna kjararáðs

Vandinn er ekki vegna inntaksins í ákvörðunum kjararáðs að mati Gylfa heldur skorts á rökum og skýringum af hálfu ráðsins.

Vegna komandi kjarasamninga er því oft haldið fram að erfiðleika við gerð þeirra megi sérstaklega rekja til samanburðar við kjör þeirra sem lutu ákvörðunum kjararáðs. Fullyrðingarnar eru hluti þess boðskapar að lykilþáttur í gerð kjarasamninga sé metingur á milli launahópa.

Idnmsamn-845x321Myndin er fengin af vefsíðu embættis ríkissáttasemjara.

Gylfi Zoëga, hagfræðiprófessor við HÍ, samdi ritgerð á vegum forsætisráðuneytisins til að skapa sameiginlegan umræðugrundvöll í kjaraviðræðunum. Hann víkur að minnsta kosti þrisvar að inntakinu í ákvörðunum kjararáðs. Hér eru þessar þrjár tilvísanir:

1.

„Sú hætta er fyrir hendi að útflutningsgreinar verði ekki samkeppnisfærar í kjölfar kjarasamninga á haustmánuðum vegna þess að samningar um kaup og kjör taki mið af hópum sem mestar hækkanir hafa fengið á undanförum mánuðum. Í þessu sambandi er oft minnst á ákvarðanir kjararáðs. Kjararáð útskýrði ekki í tilkynningum sínum forsendur ákvarðana og lýsti ekki þróun launa þeirra sem undir það féllu og birti ekki fundargerðir. Það er því rannsóknarefni hversu miklar launahækkanir hafa orðið hjá þeim hópum sem undir ráðið féllu. Ein slík rannsókn var framkvæmd fyrr á þessu ári á vegum forsætisráðuneytisins. Niðurstaða þeirrar greiningar var sú að launaþróun helstu embættismanna ríkisins á árunum 2013–2018 væri í stórum dráttum í samræmi við hækkun launavísitölunnar. Það er því ekki endilega rétt að ákvarðanir ráðsins hafi verið í ósamræmi við almenna launaþróun í landinu en hins vegar hefur ógagnsæi ákvörðunarferlisins, óregluleg tímasetning ákvarðana og í raun skortur á rökstuðningi aukið vantraust á vinnumarkaði.

2.

Samtök launafólks hafa síðustu vikur og mánuði lagt mikla áherslu á launasamanburð á milli hópa launafólks. Mikilvægt er að viðmið séu rétt út reiknuð. T.d. er alls óvíst að þeir sem falla undir kjararáð hafi fengið meiri launahækkanir síðustu ár en almenningur

3.

Í júlíbyrjun úrskurðaði kjararáð að laun forstöðumanna ríkisstofnana skyldu hækka afturvirkt frá 1. desember 2017 um að meðaltali 10,8%. Ekki eru færð nein rök fyrir þessari ákvörðun. Í þessum úrskurði sem og fyrri úrskurðum ráðsins er þannig ekki að finna röksemdafærslu fyrir launaákvörðunum. Það er því verðugt rannsóknarefni að komast að því með hvaða hætti kjararáð kemst að niðurstöðu sinni. Slík rannsókn var framkvæmd fyrr á þessu ári á vegum forsætisráðuneytisins. Niðurstaða þeirrar greiningar var sú að launaþróun helstu embættismanna ríkisins á árunum 2013–2018 væri í stórum dráttum í samræmi við hækkun launavísitölunnar fram að síðustu ákvörðun um laun forstöðumanna ríkisstofnana. Það er því ekki rétt að ákvarðanir ráðsins hafi verið í miklu ósamræmi við almenna launaþróun í landinu en hins vegar hefur ógagnsæi ákvörðunarferlisins, óregluleg tímasetning ákvarðana og í raun alger skortur á rökstuðningi ýtt undir vantraust á vinnumarkaði.“

Vandinn er ekki vegna inntaksins í ákvörðunum kjararáðs að mati Gylfa heldur skorts á rökum og skýringum af hálfu ráðsins. Sú handvömm hefur dregið dilk á eftir sér og stuðlað að ákvörðuninni um að leggja ráðið niður. Af orðum Gylfa má ráða að þeir sem vilja láta komandi kjaraviðræður snúast um ákvarðanir kjararáðs geri það til að ýta undir meting frekar en fjalla um það sem er umbjóðendum þeirra fyrir bestu.