21.12.2021 9:51

Minnihlutinn ræður ekki

Að sjálfsögðu á ekki að banna Landvernd að viðra skoðanir sínar frekar en andstæðingum bólusetninga að halda fast í rétt sinn.

Eins og oft áður má lesa tvær athyglisverðar greinar á miðopnu Morgunblaðsins í dag (21. desember). Önnur er eftir Jón Steinar Gunnlaugsson lögmann og hin eftir Hörð Arnarson, forstjóra Landsvirkjunar. Greinarnar snúast í raun báðar um sama vandamál, hvernig unnt sé að finna skynsamlegt meðalhóf til að sæmileg sátt ríki í samfélaginu við úrlausn brýnna verkefna sem ekki verður undan vikist að sinna.

Grein Jóns snýst um viðbrögð við COVID-19-faraldrinum. Í grein sinni skýrir Hörður hvers vegna þörf sé á aukinni raforku og þar með nýjum virkjunum. Í fljótu bragði mætti ætla að allir væru einhuga um að með bólusetningum og lyfjum ætti að einhenda sér í að sigrast á kórónuveirunni og öllum afbrigðum hennar. Þá ætti að liggja í augum uppi að skynsamlegasta leiðin til að vinna að markmiðum í þágu loftslagsbreytinga hér væri að virkja sem mest af vatns- og gufuorku og tryggja öruggan og greiðan flutning raforku um land allt.

Málum er því miður ekki háttað á þennan veg. Þrátt fyrir ráð sérfróðra manna, hvatningu þeirra og framtak af opinberri hálfu neita margir að láta bólusetja sig. Í grein sinni segir Jón Steinar að ekki sé við því að búast að opinber fyrirmæli dugi til að ráða niðurlögum veirunnar . Besta vörnin felist áreiðanlega í „að bjóða fram lyf og bóluefni sem hver og einn borgari á kost á að fá, en gera síðan í meginatriðum ráð fyrir að hver og einn passi upp á sjálfan sig.“ Þetta er gert hér á landi og dugar vonandi hvað sem á dynur. Meðal fjölmennari lýðræðisþjóða eiga önnur sjónarmið og kröfur um opinbera valdbeitingu gegn óbólusettum æ meiri hljómgrunn.

2503855Hörður Arnarson segir í grein sinni að vaxandi orkuþörf samfélagsins sé staðreynd og fjarri öllum raunveruleika að ætla sér að mæta aukinni orkuþörf með því að treysta á að einhverjir stórnotendur orku loki og hverfi úr viðskiptum og þar myndist allt í einu borð fyrir báru. Jafnvel hafi ákveðin fyrirtæki verið ítrekað nefnd þar til sögunnar, þar á meðal viðskiptavinir Landsvirkjunar.

Nýlega birti Tryggvi Felixson, formaður Landverndar, grein á vefsíðunni Kjarnanum sem boðar allt annað en forstjóri Landsvirkjunar. Formaðurinn mælir gegn þeirri víðtæku sátt sem ríkti hér áratugum saman að þjóðinni yrði til gagns og hagsbóta að nýta, af fullu tilliti til náttúrunnar, endurnýjanlega orkugjafa í þágu verðmætasköpunar og aukinnar hagsældar. Þetta var meira að segja áður en umræður hófust af fullum þunga um gildi þessara orkugjafa í þágu alþjóðlegra skuldbindinga í loftslagsmálum.

Að sjálfsögðu á ekki að banna Landvernd að viðra skoðanir sínar frekar en andstæðingum bólusetninga að halda fast í rétt sinn. Á hinn bóginn verður að búa þannig um hnúta að hvorugur minnihlutahópurinn taki völdin í sinar hendur og standi gegn þróun samfélagsins sem meirihlutinn telur æskilegasta.

Landvernd á ekki að ráða ferðinni í orkumálum frekar en óbólusettir í veirumálum. Það er hlutverk kjörinna fulltrúa þjóðarinnar að sjá til þess að svo sé ekki.