Mikilvægt frumkvæði Baldurs
Baldur Þórhallsson hefur tekið frumkvæði meðal háskólamanna í umræðum um öryggis- og varnarmálin í ljósi innrásar Pútins í Úkraínu.
Eini innlendi vettvangur til umræðna um um varnar- og öryggismál hefur árum saman verið Varðberg, samtök um vestræna samvinnu og alþjóðamál. Við sem þar störfum höfum efnt reglulega til funda og ráðstefna auk þess að halda úti vefsíðunni vardberg.is. Þar er um mikinn gagnagrunn að ræða.
Erlendis starfa öflugar hugveitur að greiningu á þessum málum og hefur Varðberg leitað þangað eftir sérfróðum og menntuðum fyrirlesurum enda ekki um auðugan garð að gresja hér á landi.
Innan íslenska háskólasamfélagsins er ekki lögð nein áhersla á þessa fræðigrein. Stundum hafa þó starfað hér erlendir prófessorar og litið til alþjóðamála frá sjónarhóli öryggis- og varnarmála.
Íslenska stjórnkerfið er tregt til að ráða til starfa hjá sér sérfróða menn um margvíslega þætti sem snúa að öryggis- og varnarmálum eða samskipti Íslands við NATO og stofnanir þess.
Að tala um Ísland sem herlaust er eitt en að
ekki hafi verið lögð nein áhersla á að skapa hér þekkingarsetur um varnir og öryggi
landsins er annað og ber annaðhvort vott um mikið áhugaleysi eða er skýr afleiðing
þekkingarleysisins sem einkennir stjórnmálaumræður um þessi mál.
Baldur Þórhallsson.
Baldur Þórhallsson, stjórnmálafræðiprófessor við Háskóla Íslands, hefur undanfarnar vikur tekið frumkvæði meðal háskólamanna í umræðum um öryggis- og varnarmálin í ljósi innrásar Pútins í Úkraínu.
Í Fréttablaðinu í dag (22. apríl) spáir Baldur því að eyðimerkurgöngunni sé lokið. Hann „segir umræðu um varnarmál á Íslandi komna til að vera, í hið minnsta meðal stjórnmálamanna og í stjórnsýslunni, jafnvel þó að áhuginn fari minnkandi meðal almennings“.
Mæli Baldur manna heilastur. Áhugi almennings ræðst af því að við hann sé rætt um mál. Sé þögn meðal stjórnmála- og fjölmiðlamanna er ekki ýtt undir neinn áhuga annarra.
Baldur segir að vinna sé hafin við að meta varnarþörf Íslands og á Norður-Atlantshafi „þannig að umræðan er komin til að vera meðal þeirra sem móta stefnuna, hvort og hvernig sem hún verður í almennri umræðu.“
Til hverra hann vísar með þessum orðum er ekki ljóst. Hitt er að yfirlýsingar ríkisoddvitafunda NATO frá 2016 sýna að bandalagsþjóðirnar líta nýjum augum á Norður-Atlantshaf og það sem þær kalla „High North“, það er norðurslóðir.
Baldur bendir réttilega á að hér sé umræðan um þáttaskilin sem orðin eru í evrópskum öryggismálum enn á allt annan veg en í nágrannalöndunum og setur það svip á stefnumótun stjórnvalda. Þau eru skrefi eða skrefum á eftir öðrum.
„Það getur verið að það sé mikilvægt fyrir okkur að vera með litla fasta öryggissveit sem kæmi til aðstoðar ef eitthvað kæmi hér upp á. Ég er ekki að segja að það sé nauðsynlega þörf á þessu, en við þurfum að ræða þetta,“ segir Baldur Þórhallsson. Þetta er ekki ný hugmynd en ræði menn hana nú af þeirri alvöru sem þarf jafngilti það umræðunum í Finnlandi og Svíþjóð um aðild að NATO. Íslensk stjórnvöld eiga að leggja fram ígrundað umræðuskjal um þetta mál fyrr en síðar.