12.5.2018 11:06

Metnaðarfull D-lista stefna í Rangárþingi eystra

Frambjóðendur D-lista sjálfstæðismanna og annarra lýðræðissinna héldu fjölmenna kosningaskemmtun í Midgard á Hvolsvelli að kvöldi föstudags 11. maí.

Frambjóðendur D-lista sjálfstæðismanna og annarra lýðræðissinna héldu fjölmenna kosningaskemmtun í Midgard á Hvolsvelli að kvöldi föstudags 11. maí. Anton Kári Halldórsson, efsti maður listans, setti samkomuna. Þá sungu feðginin Magnús Þór Sigmundsson og Þórunn Antónía við góðar undirtektir. Nutu gestir samveru og veitinga fram eftir kvöldi.

Eyjafjallajökull að morgni 12. maí 2018.

Midgard er eitt margra fyrirtækja sem komið hafa til sögunnar hér í Rangárþingi eystra á undanförnum árum vegna mikils straums ferðamanna sem hingað sækir og hefur gjörbreytt atvinnuháttum í sveitarfélaginu.

D-listamenn komu saman fyrr í vikunni og kynntu metnaðarfulla stefnuskrá sína sem lögð var fram í glæsilegum bæklingi á kosningaskemmtuninni. Þar segir um atvinnumál:

„Rangárþing eystra er eitt öflugasta landbúnaðarhérað Íslands og við viljum byggja markaðssetningu sveitarfélagsins á þeirri staðreynd. Við teljum að nýta eigi gott landbúnaðarland til matvælaframleiðslu. Ferðaþjónusta fer ört vaxandi bæði í dreifbýli og þéttbýli. Mikilvægt er að sveitarfélagið sé undirbúið fyrir þann vöxt með framsýnu og góðu skipulagi. Við teljum nauðsynlegt að endurskoða aðalskipulag sveitarfélagsins. Í þeirri stefnu þarf að marka heildarstefnu í ferðamálum, einfalda og skýra leiðir til uppbyggingar ferðaþjónustu og íbúða í dreifbýli. Marka þarf stefnu sveitarfélagsins í orkumálum, m.t.t. vindorku, rafmagns- og hitaveitu. Aðalskipulag þarf að vinna í góðu samráði við íbúa sveitarfélagsins og aðra hagsmunaaðila. Mikilvægt er að á Hvolsvelli verði hafist handa við skipulagningu nýs athafna- og iðnaðarsvæðis.“

File-12Þríhyrningur að morgni 12. maí 2018.

Landeyjahöfn er í Rangárþingi eystra og í stefnuskrá D-listans segir að kanna eigi „frekari möguleika á nýtingu Landeyjahafnar“.

Kynnt er stefna í félags- og heilbrigðismálum, mennta- og íþróttamálum og hugað að hag aldraðra, stjórnsýslu og íbúalýðræði. Þá er einnig kafli um menningarmál þar sem segir í inngangi: „Við í Rangárþingi eystra erum svo lánsöm að búa á söguslóðum Njálu og okkur ber að halda þeirri arfleifð til haga.“

Feðginin Magnús Þór og Þórunn Antónía skemmta hjá D-listanumí Midgard.

Telja frambjóðendur D-listans nauðsynlegt að ráðast í „heildar endurskoðun á rekstri og utanumhaldi Sögusetursins og Kaupfélagssafnins“. Í Sögusetrinu er Njálusýning en hlé varð á starfseminni í upphafi árs. Þá segir einnig að halda eigi „uppi heiðri merkra listamanna sem hafa sterka tengingu við Rangárþing eystra“ og er þar af mörgu að taka en í lok þessa kafla stefnuyfirlýsingarinnar segir:

„Finna Njálureflinum stað við hæfi til framtíðar. Refillinn er auðlind sem getur, ef vel er að staðið, dregið að fjölda ferðamanna og orðið okkur til mikils sóma í þágu menningar.“

Undir þetta skal tekið en hér má fræðas t um Njálurefilinn og stórhug þeirra kvenna sem staðið hafa að gerð hans. 

Metnaðarfull stefnuskrá og sterkur framboðslisti D-lista sjálfstæðismanna og annarra lýðræðissinna auðveldar kjósendum í Rangárþingi eystra valið: XD