20.9.2017 10:18

Meiri óvissa um hlutverk alþingis en starfsstjórna

Umboð ráðherra til embættisverka í starfsstjórn er skýrara en inntak umboðs þingmanna eftir að þing hefur verið rofið.

Enn á ný hefjast umræður um hvað starfsstjórn er heimilt að gera eða ber að láta ógert. Í Morgunblaðinu í morgun er til dæmis vitnað til þess að Ólafur Jóhannesson, stjórnlagaprófessor og síðar forsætisráðherra, hafi til dæmis talið hæpið að starfsstjórn gæti rofið þing. Bjarni Benediktsson var orðinn forsætisráðherra í starfsstjórn mánudaginn 18. september 2017 þegar hann gekk á fund Guðna Th. Jóhannessonar forseta Íslands á Bessastöðum og lagði fyrir hann tillögu um þingrof frá og með 28. október 2017. Síðar sama dag tilkynnti Bjarni þingrofið á alþingi með því að lesa forsetabréfið og segja síðan:

„Virðulegi forseti. Við þekkjum öll aðdraganda þess að ég hef í dag lagt fyrir forseta það bréf sem ég hef hér lesið upp, en það formsatriði er hér með uppfyllt að bréfið sé tilkynnt á Alþingi til að það taki þar með gildi.“

Því má velta fyrir sér, hafi starfandi forsætisráðherra aldrei fyrr rofið þing, hvort nú sé komið stjórnskipulegt fordæmi sem sýnir að forsætisráðherra í starfsstjórn getur rofið þing án þess að nokkur geri við það athugasemd eða krefjist ógildingar með fræðilegum rökum um að forseta Íslands hafi verið óheimilt að fallast á þingrofstillögu frá forsætisráðherra í starfsstjórn.

Í ljós kom við stjórnarslitin að þingmenn sem stóðu að stjórnarsamstarfinu höfðu ekki hugmynd um hvað fælist því að sitja í starfsstjórn. Frá Bjartri framtíð kom krafa um að forsætisráðherra og dómsmálaráðherra vikju sæti vegna rannsóknar máls – eftir að þau hefðu beðist lausnar! Af hálfu Benedikts Jóhannessonar, formanns Viðreisnar, var gerður fyrirvari um setu í starfsstjórn þar til ráðgjafaráð flokksins hafði heimilað ráðherrum flokksins setu þar!

Ég átti í gær samtal við embættismenn vegna máls sem hefur verið lengi á döfinni og komst á lokapunkt eftir fund okkar. Embættismennirnir sögðu að nú ríkti óvissa um framhaldið vegna þess að það væri komin starfsstjórn. Ég sagði það af og frá, ráðherrar í starfsstjórn gætu unnið öll embættisverk. Í fyrra, 6. desember 2016, lagði starfsstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar til dæmis fram fjárlagafrumvarp fyrir árið 2017.

Í mars 1979 birtist grein eftir mig um starfsstjórnir í Tímariti lögfræðinga. Ég samdi hana á meðan ég starfaði sem skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu til þess að auðvelda þeim sem þar störfuðu og öðrum að svara spurningunni um hlutverk starfsstjórna. Ólafur Jóhannesson var forsætisráðherra á þessum tíma en Þór Vilhjálmsson, prófessor og dómari, ritstjóri tímaritsins. Án atbeina þeirra hefði greinin aldrei farið á prent. Hana má lesa hér. 

GetFile.php-2Eggert ljósmyndari Morgunblaðsins tók þessa mynd þegar Bjarni Benediktsson tilkynnti þingmönnum þingrof mánudaginn 18. september 2017 og birtist hún daginn eftir á forsíðu blaðsins.

Vegna umræðna núna um að þingstörfum verði haldið áfram þótt þing hafi verið rofið er ástæða til að velta fyrir sér hvert sé hlutverk þingmanna fram til 28. október þegar nýtt þing verður kosið. Meiri óvissa ríkir um það en umboð starfsstjórna.

Fram til 1991 gilti að þing leystist upp frá og með þeim degi sem það var rofið. Nú halda þingmenn umboði sínu fram á kjördag. Á Vísindavef Háskóla Íslands segir um störf þings eftir að þingrof hefur verið tilkynnt:  

„Í stjórnarskránni er ekki kveðið á um þetta með skýrum hætti en almennt hefur verið talið að þingið geti nýtt tímann eftir að þingrof hefur verið tilkynnt til að ljúka brýnum málum.

Í nefndaráliti allsherjarnefndar, sem var unnið í tengslum við breytinguna á 24. gr. stjórnarskrárinnar árið 1991, er vikið að þessu atriði. Þar segir meðal annars að reynsla annarra þjóða, sem búi við svipað fyrirkomulag, sé að þingið taki sér aðeins tíma til að afgreiða brýnustu mál, sem alger samstaða er um, en ljúki síðan störfum til að kosningaundirbúningur geti hafist.

Þessi túlkun er þó ekki óumdeild og á vorþingi 2009 var þingrof tilkynnt 13. mars en þingið starfaði fram til 17. apríl og var fjöldi mála afgreiddur á þessum tíma. Forsætisráðherra [Jóhanna Sigurðardóttir] tók það raunar fram þegar tilkynnt var um þingrofið að „engar hömlur“ væru „á umboði þingmanna á þessu tímabili“ og unnt væri að leggja fram ný mál þótt tilkynnt hafi verið um þingrof og að hægt væri að afgreiða bæði almenn lög og stjórnarskipunarlög.

Hafa ber þó í huga að aðstæður á þessum tíma voru sérstakar í samfélaginu og í þingstörfunum, sem stóðu mun lengur en vanalega. Þingstörfum var frestað aðeins rúmri viku fyrir kjördag.“

Ég sat á þinginu frá 13. mars til 17. apríl og tók þátt í hatrömmum deilum um stjórnarskrármálið sem Jóhanna Sigurðardóttir ætlaði að knýja í gegn „af því að það varð hrun“. Ætlunin var að beita sömu aðferð og sósíalistarnir með alræðisþörfina hafa nú beitt í Venezúela: að koma á laggirnar stjórnlagaþingi til að niðurlægja alþingi. Við Sjálfstæðismenn stóðum hart gegn þessari aðför að alþingi og höfðum betur, Jóhanna og hennar lið komst ekki upp með ofríkið.

Ekkert sambærilegt ástand er núna og kröfur um afgreiðslu gælumála einstakra flokka ber að hafa að engu. Þingmenn eiga að snúa sér kjósenda sem frambjóðendur kynna stefnu sína.