15.8.2018 10:34

Meinlaus þriðji orkupakki ESB

ACER fær ekkert vald á Íslandi í gegnum þriðja orkupakkann – ESA kemur fram gagnvart EFTA/EES-ríkjunum.

Ragna Árnadóttir, lögfræðingur og aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, birti 14. júlí síðastliðinn grein á vefsíðu Úlfljóts, tímarits laganema við háskóla Íslands, þar sem hún ræddi um innleiðingu á þriðja orkupakka ESB í íslenskan rétt en greinina má lesa hér .

Þegar Ragna dregur saman niðurstöðuna segir hún:

„Í tilviki Íslands myndu heimildir ACER [eftirlitstofnunar ESB með raforkumarkaði] verða í höndum ESA [Eftirlitsstofnunar EFTA]. Þá er um afmarkaðar heimildir að ræða sem takmarkast við ágreining eftirlitsyfirvalda er varðar flutningslínu eða sæstreng milli landa. Íslenskt raforkukerfi er sem kunnugt er ekki tengt öðru ríki innan EES með sæstreng. Því er óþarft að hafa miklar áhyggjur af þessum þætti málsins.

Áhrifa þriðja pakkans myndi gæta hvað mest í starfsemi Orkustofnunar, einkum hvað varðar sjálfstæði stofnunarinnar við framkvæmd raforkueftirlits.“

Img_6875

Lagadeild Háskólans í Reykjavík boðaði til fundar um innleiðingu þriðja orkupakka ESB að morgni mánudags 13. ágúst. Hann var fjölsóttur og þar flutti Kristín Haraldsdóttir, lektor við lagadeild HR, erindi um lögfræðilegar hlið málsins. Hér birtist mynd af glæru sem sýnir niðurstöður hennar og eru þær samhljóða niðurstöðu Rögnu: Áhrifin yrðu engin á forræði yfir auðlindum og vali á orkugjöfum; þau yrðu engin á eignarhald raforkufyrirtækja; Íslendingar hefðu afmarkaðri heimildir til að fá undanþágur; afmarkað og vel skilgreint framsal valdheimilda til ESA en gera þarf breytingar á reglum raforkulaga varðandi eftirlit, það er auka sjálfstæði innlendra eftirlitsaðila gagnvar íslenskum stjórnvöldum.

Í grein Óla Björns Kárasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, í Morgunblaðinu í morgun (15. ágúst) lýsir hann álitaefnum varðandi EES-aðildina nú þegar 25 ár eru frá því að hún kom til sögunnar. Hann segir að þar skipti mestu varðastaðan um tveggja stoða kerfið svonefnda, það er að EES-ríkin búi við sjálfstætt stjórnkerfi við hlið ESB, þar kemur Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) í stað framkvæmdastjórnar ESB og EFTA-dómstóllinn í stað ESB-dómstólsins. Þess gæti að ESB vilji sniðganga þetta kerfi sem er fullveldisvörn EFTA-ríkjanna í EES. Eins og að ofan greinir kemur ESA fram gagnvart EFTA/EES-ríkjunum í þriðja orkupakkanum en ekki ACER.

Vilji menn með haldgóðum, lögfræðilegum rökum berjast gegn aðild Íslands að EES eða beinni íhlutun ESB í innri málefni Íslands ættu þeir að gera ágreining um annað en þriðja orkupakkann.