23.11.2017 12:21

Mannréttindadómstóllinn leggur blessun yfir Landsdóm

Að MDE telji málaferlin ekki brot á Mannréttindasáttmála Evrópu réttlætir ekki að til þeirra var stofnað en sýnir að þessi ákvæði íslenskrar stjórnskipunar standast kröfur evrópska mannréttindasáttmálans.

Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) kvað upp þann dóm í dag (23. nóvember) að íslenska ríkið hefði ekki brotið gegn Mannréttindasáttmála Evrópu þegar Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, með ákæru og dómi Landsdómi í apríl 2012. Þá var það ekki heldur talið brot á mannréttindasáttmálanum að sakfella Geir án refsingar fyrir að hafa brotið gegn 17. grein stjórnarskrárinnar þar sem kveðið er á um að skyldu til þess að halda ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni.

Í dóminum felst að MDE telur ákvæði stjórnarskrárinnar um Landsdóm, lögin um málsmeðferð fyrir Landsdómi, afgreiðslu þingmannanefndar á málum sem vísað var til alþingis af rannsóknarnefnd þess á bankahruninu, ákæru alþingis á hendur Geir, hlut saksóknara fyrir Landsdómi, störf Landsdóms og niðurstöðu hans standast ákvæði mannréttindasáttmálans.

Úr dómssal í Strassborg

Vegna málsins gegn Geir og hvernig að því var staðið á alþingi lýstu margir yfir því, þar á meðal alþingismenn, að ákvæði stjórnarskrárinnar um Landsdóm og allt sem varðaði hann væri úr sér gengið og ætti enga samleið með samtímanum og nútímalegum hugmyndum um innviði réttarríkisins.

MDE bendir á að misjafnlega sé í aðildarríkjum Evrópuráðsins staðið að málarekstri sé ráðherra sóttur til saka. MDE gerir hvorki athugasemd við þá skipan sem ríkir hér á landi né ákvæði stjórnarskrárinnar um Landsdóm. Allt stenst þetta mannréttindasáttmálann að mati MDE.

Sú spurning hlýtur að vakna hvort þessi niðurstaða MDE verði til þess að minnka áhuga á að breyta ákvæðum um Landsdóm eða blási þeim nýjan baráttuanda í brjóst sem vilja gera það.  Breyting á Landsdómi hefði verið sjálfgefin ef MDE teldi dómstólinn brjóta í bága við réttarreglur samtímans.

Líta ber á niðurstöðuna í máli Geirs Haarde gegn íslenska ríkinu í þessu ljósi. Dómararnir í Strassborg fara í saumana á lögmæti ákvarðana sem teknar hafa verið og telja allt standast kröfur réttarríkisins. Sigur íslenska ríkisins felst í því að ekki er talið að grunnstoðir sem koma við sögu í málinu séu ónýtar.

Það auðveldar MDE að komast að þessari niðurstöðu að meirihluti Landsdóms komst að þeirri niðurstöðu að sakfella skyldi Geir án refsingar fyrir að fara ekki að 17. gr. stjórnarskrárinnar og ræða vanda bankanna á ríkisstjórnarfundum í aðdraganda hrunsins.

Ég sat í ríkisstjórninni í aðdraganda hrunsins og hef margsinnis lýst undrun minni yfir hve ríka kröfu meirihluti Landsdóms gerir um að bóka skuli allt sem sagt er við ríkisstjórnarborðið enda þótt það verði ekki fyrr en síðar talið til „mikilvægra stjórnarmálefna“. Þannig var málum háttað um hrun bankanna.

Málaferlin gegn Geir H. Haarde voru pólitísk í eðli sínu. Efnislega reyndust þau ekki á rökum reist eins og sýkna hans í Landsdómi sýndi. Sakfellingin án refsingar fólst í sérkennilegri túlkun á því sem bóka átti í fundargerðabók ríkisstjórnarinnar.

Að MDE telji málaferlin ekki brot á Mannréttindasáttmála Evrópu réttlætir ekki að til þeirra var stofnað en sýnir að þessi ákvæði íslenskrar stjórnskipunar standast kröfur evrópska mannréttindasáttmálans.