4.7.2018 10:58

Mælanleiki í opinberri stjórnsýslu

Segir Atli Harðarson að þar gagnrýni höfundur mælingaráráttu samtímans sem birtist meðal annars í nýskipan í opinberum rekstri.

Í nýjasta hefti tímaritsins Þjóðmála skrifar Atli Harðarson dósent um bókinna The Tyranny of Metrics eftir Jerry Z. Muller. Segir Atli að þar gagnrýni höfundurinn mælingaráráttu samtímans sem birtist meðal annars í nýskipan í opinberum rekstri. Atli segir:

„Upp úr miðri síðustu öld fékk umrædd árátta stuðning frá viðskiptadeildum háskóla, einkum í Bandaríkjunum, sem tóku að mennta fólk til stjórnunarstarfa óháð viðfangsefnum, þannig að það var allt á eina bókina lært hvort sem menn ætluðu að stjórna spítala eða bílaverksmiðju. Fram að því höfðu, segir Muller, flestir stjórnendur risið innan fyrirtækja og verið treyst fyrir forstjórastöðum vegna þess að þeir höfðu reynslu af vettvangi og höfðu staðið sig vel í vinnu. Þessi hugmynd um forstjórann sem kann bæði að stjórna spítala og bílaverksmiðju, þótt hann hafi hvorki unnið við lækningar né smíði á ökutækjum, byggist á þeirri ofureinföldun á mannlegri þekkingu sem áður er nefnd [að allt sé mælanlegt]. Ef hægt væri að fanga alla vitneskju sem máli skiptir í skýrslur og formleg matsgögn væri ef til vill hægt að stjórna vel án þess að hafa reynslu af vettvangi.“

Við lestur umsagnar Atla rifjaðist upp að um miðjan tíunda áratuginn þegar ég varð menntamálaráðherra réð sú stefna  í ríkisrekstrinum að gera skyldi árangursstjórnunarsamninga með mælanlegum markmiðum milli ráðuneyta og stofnana þeirra. Innan ráðuneytis mennta- og menningarmála var þessari stefnu fylgt.

Hve mikil áhersla er lögð á þetta nú í opinberum rekstri hér veit ég ekki. Vandinn við samningsbundin tengsl ráðuneytis við stofnanir á þess vegum er meðal annars misvægið í samskiptum ráðuneytis og stofnunar eins og nú birtist í frásögnum af samningsbundnum tengslum heilbrigðisráðuneytis og sjúkratrygginga. Yrði fengur að fá  álit dómara á samningsbundnu sambandi ráðuneytis og stofnunar.

Settur samgönguráðherra skipaði nýlega þann sem hæfastur þótti til að verða vegamálastjóri. Verkfræðingar hafa skipað þá stöðu til þessa en nú var dýralæknir valinn. Þar réð sú skoðun að hæfni til stjórnunar sé mælanleg án tillits til reynslu og fyrri starfa á því sviði sem um er að ræða.

Hjá dómnefnd um umsækjendur til setu í landsrétti réðu tveir ef ekki þrír aukastafir á excel-skjali úrslitum við val á milli dómaraefna. Andstæðingar dómsmálaráðherra hafa uppi harðar ásakanir á hendur ráðherranum fyrir að láta ekki niðurstöður skjalsins ráða.