21.4.2024 9:59

Maðurinn njóti vafans

Byggð um land allt er forsenda þess að gæði lands og sjávar séu nýtt. Á það ekki aðeins við um búskap eða sjósókn heldur einnig nú í vaxandi mæli ferðaþjónustu.

Í framhaldi af því sem sagði hér á síðunni í gær um uppbyggingu og stórhug í Ólafsdal skal vakin athygli á tilkynningu sem birt var 19. mars 2024:

„Út er komin skýrslan Leiðir að byggðafestu eftir Hlédísi Sveinsdóttur og Björn Bjarnason. Skýrslan er unnin á vegum Fjórðungssambands Vestfirðinga (FV), Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) og Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV). Aðdraganda skýrslunnar má rekja til fundar landshlutasamtakanna þriggja og þingmanna kjördæmisins um stöðu sauðfjárræktar í landinu. Byggðastofnun hafði þá í skýrslu um málefnið dregið upp afar dökka mynd af stöðu og framtíðarhorfum sauðfjárræktar á Íslandi. Þar var það jafnframt metið svo að verst kæmi þetta niður á Dalabyggð, Reykhólahreppi, Húnaþingi vestra og Ströndum.

Landshlutasamtökin þrjú fengu styrk úr C1 lið Byggðaáætlunar til að hvetja til verðmæta- og nýsköpunar á þessum landsvæðum sem mest hafa átt undir sauðfjárrækt. Fyrsta skrefið við framkvæmd verkefnisins var tækifæragreining, annað skrefið er stefnumótun og þriðja skrefið fræðsla og tengslamyndun til framkvæmdar fyrrgreindra tækifæra. Leiðir að byggðafestu felur í raun í sér í senn stöðu- og tækifæragreiningu sem undirbýr jarðveginn fyrir þriðja skrefið.

Þar sem höfuðvígi sauðfjárræktar er strjálbýlið er áhersla lögð á að mæta því í þeirri vinnu sem fram hefur farið og tilgangurinn að efla frumkvöðlastarf á lögbýlum. Ætlunin er að veita frumkvöðlum stuðning og hvatningu og fara í fræðslu og tengslamyndun með þeim.“


Leidir-ad-byggdafestu-671x1024

Hér má lesa skýrsluna.

Það var bæði fróðlegt og ánægjulegt að fara um þessar byggðir og kynna sér mannlífið og framfarahug á mörgum sviðum. Tækifærin eru víða.

Það sem kemur á óvart við greiningu sem þessa er að annars vegar er yfirlýst opinber stefna að treysta undirstöður byggðar um land allt en hins vegar er með alls kyns opinberum boðum og bönnum skipulega unnið að því að setja atvinnufrelsi skorður.

Byggð um land allt er forsenda þess að gæði lands og sjávar séu nýtt. Á það ekki aðeins við um búskap eða sjósókn heldur einnig nú í vaxandi mæli ferðaþjónustu.

Sé mannlífið ekki sett í forgang er grafið undan byggðafestu. Það verður að láta manninn og verðmætasköpun hans njóta vafans. Þetta á jafnt við um nýtingu lands og sjávar, sauðfjárbeit og strandveiðar, svo ekki sé minnst á kræklinga- og þörungarækt á því svæði sem hér um ræðir.