19.4.2017 13:32

Lögin gilda einnig um umhverfisráðherra

Fari ráðherrann ekki að lögum og reglum gagnvart United Silicon í Helguvík er hún engu betri en stjórnendur fyrirtækisins virði þeir ekki lög og reglur við rekstur þess. Setja má ráðherranum skorður ekki síður en stjórnendum fyrirtækisins.

Enginn dregur í efa að Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra megi hafa pólitíska skoðun og fylgja henni fram á þann hátt sem hún telur að falli best að umboðinu sem hún hefur hlotið frá kjósendum. Henni ber hins vegar sem ráðherra að virða lög og reglur, þar á meðal stjórnsýslulögin. Fari hún að þeim ber henni að afgreiða mál sem falla undir hana sem ráðherra á grundvelli gagna sem fyrir hana eru lögð af þar til bærum stofnunum og sérfræðingum auk þess að hafa ráðgjöf innan ráðuneytis síns til hliðsjónar. Henni ber einnig að virða andmælarétt þeirra sem lúta valdi hennar.

Fari ráðherrann ekki að lögum og reglum gagnvart United Silicon í Helguvík er hún engu betri en stjórnendur fyrirtækisins virði þeir ekki lög og reglur við rekstur þess. Setja má ráðherranum skorður ekki síður en stjórnendum fyrirtækisins.

Björt Ólafsdóttir.

Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra lýsti þeirri skoðun sinni á Facebook þriðjudaginn 18. apríl að loka ætti verksmiðju United Silicon. Rætt var við Björt á Morgunvaktinni á Rás 2 í morgun. Hún sagði: 

„Ég einfaldlega segi og lýsi þeirri skoðun minni, sem stjórnmálamaður, sem er kosin út á skoðanir mínar, að það sé komið nóg þarna. Það er skylda mín að standa með almenningi í landinu en ekki einhverjum öðrum og það geri ég. Fyrr en þessum spurningum hefur verið svarað sem uppi eru að þá finnst mér að það hefði átt að loka og það eigi ekki að opna á ný fyrr en þeim er öllum svarað.“ 

Á ruv.is segir 19. apríl:

„En telur ráðherrann að hún kunni með þessum ummælum vera kominn inn á verksvið Umhverfisstofnunar? „Ég veit ekki til hvers ég á að vera í pólitík og vera stjórnmálamaður ef ég get ekki lýst skoðun minni. Það væri þá heldur slappur stjórnmálamaður að mínu viti. Ég treysti stofnuninni til þess að framfylgja því sem þeir telja vera rétta ferla og rétt aðferðafræði í þessu. Og þau hafa staðið sig mjög vel í því, Umhverfisstofnun hefur gert það. Og hefur verið vakin og sofin yfir þessu verkefni sem auðvitað reynist ofboðslega stórt. Þetta er dálítið einstakt að þurfa að vera með fyrirtæki í viðlíka gjörgæslu eins og þarna er,“ segir Björt.“


Svandís Svavarsdóttir.

Svandís Svavarsdóttir, þáv. umhverfisráðherra, brást illa við í febrúar 2011 þegar hæstiréttur dæmdi að hún hefði ekki farið að lögum við töku ákvarðana um skipulagsmál í Flóahreppi er varðaði Úrriðafossvirkjun í Þjórsá. Svandís færði meðal annars þessi rök fyrir lögbroti sínu í þingræðu 15. febrúar 2011:

„Spurningin er þessi: Hvaða hagsmunir eiga að njóta vafans þegar upp koma álitamál? Eru það hagsmunir viðskipta- og atvinnulífs eða eru það hagsmunir almennings og náttúru? Í mínum huga er þetta einföld spurning og fjallar í rauninni um grundvöll umhverfis- og náttúruverndar í landinu og mitt verkefni sem umhverfisráðherra á Íslandi. Þessi forgangsröðun liggur fyrir í mínum huga: Náttúran og almenningur eiga alltaf að njóta vafans.“

Af þessu tilefni sagði þingmaður Framsóknarflokksins, Sigurður Ingi Jóhannsson, síðar forsætisráðherra í þingræðu:

„Í máli Flóahrepps gegn umhverfisráðherra var ekki verið að fjalla um þau störf eða skoðanir ráðherrans. Dómur héraðsdóms og Hæstaréttar snerist um að ráðherra hefði ekki farið að lögum, hefði ekkert með umhverfismál að gera. Ráðherra braut á stjórnskipulegum rétti sveitarfélaga varðandi skipulagsmál, sama málaflokk og ráðherrann ber ábyrgð á. Samt kom í ljós að lítill sveitahreppur og lýðræðislega kosnir fulltrúar hans og embættismenn túlkuðu lögin rétt en ráðherrann rangt. Það hlýtur að hafa einhverjar afleiðingar þegar ráðherrar misbeita valdi sínu. Höfum við ekkert lært frá hruni? Lærðum við ekkert af rannsóknarskýrslu Alþingis?“

Svandís Svavarsdóttir sagði:

„Spurningin um hvort pólitík Vinstri grænna sé ofar landslögum þá er það ekki svo en hins vegar erum við hér öll með einhverja pólitíska stefnumótun að leiðarljósi. Í mínu tilviki er það pólitík Vinstri grænna, sérstaklega grænna.“

Fari ráðherrann ekki að lögum og reglum gagnvart United Silicon í Helguvík er hún engu betri en stjórnendur fyrirtækisins virði þeir ekki lög og reglur við rekstur þess. Setja má ráðherranum skorður ekki síður en stjórnendum fyrirtækisins.

Hrokinn leyndi sér ekki. Græni umhverfisráðherrann hafði rétt fyrir sér hvað sem lögunum leið. Ríki sama viðhorf hjá umhverfisráðherra Bjartrar framtíðar núna er þörf á áminningu um hollustu við stjórnskipunarreglur. Virðingarleysi gagnvart lögum og reglum er vatn á myllu United Silicon. Hvað sem líður lélegum málstað fyrirtækisins á það rétt á að löglega sé staðið að afgreiðslu mála þess.