20.4.2017 14:50

Landlæknir, ráðuneytið og Klíníkin

Heilbrigðisráðuneytið sagði í bréfi dagsettu 13. desember 2016, að það væri ósammála túlkun landlæknis og að líta bæri á þennan rekstur Klíníkunnar sem hvern annan stofurekstur lækna og þyrfti hann því ekki leyfi ráðherra.
Gleðilegt sumar!
Í gær var vakið máls á því hér að svo virtist sem Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra áttaði sig ekki á skyldum sínum að stjórnsýslulögum. Yfirlýsingar hennar gegn verksmiðju United Silicon verksmiðju í Helguvík geri hana vanhæfa til að fjalla um málefni verksmiðjunnar komi málefni tengd henni til afgreiðslu Bjartar sem ráðherra.

Í dag birtast fréttir um að Birgir Jakobsson landlæknir sé ósammála túlkun heilbrigðisráðuneytisins á lögum sem snerta meðal annars starfsleyfi Klíníkunnar við Ármúla þar sem læknar vilja bjóða allt að fimm daga dvöl á legudeild eftir aðgerð.

Embætti landlæknis (EL) hefur staðfest að starfsemi Klíníkunnar með fimm daga legudeild uppfylli faglegar lágmarkskröfur um sérhæfða sjúkrahúsþjónustu. Embættið hefur því bent ráðuneytinu á að samkvæmt skilningi þess á lögum þurfi leyfi ráðherra til þess að hefja rekstur legudeildar með tilheyrandi aðgerðum.

Heilbrigðisráðuneytið sagði í bréfi dagsettu 13. desember 2016, að það væri ósammála túlkun EL og að líta bæri á þennan rekstur Klíníkunnar sem hvern annan stofurekstur lækna og þyrfti hann því ekki leyfi ráðherra.

Allt ætti þetta að vera nokkuð skýrt. Landlæknir sér þó ástæðu til að fjalla um málið á vefsíðu sinni miðvikudaginn 19. apríl vegna þess að umræða á alþingi um málið þegar heilbrigðisráðherra var spurður hvort hann ætlaði að heimila Klíníkinni að reka hér á landi sérhæfða sjúkrahúsþjónustu hafi „öll“ verið „mjög ruglingsleg og erfitt að átta sig á hvaða ákvarðanir höfðu verið teknar og af hverjum“.

Undir þessi orð landlæknis skal tekið. Niðurstaða hans er að úr því að ráðuneytið líti á starfsemi Klíníkunnar með legudeild sem hvern annan stofurekstur en ekki sérhæfða sjúkrahúsþjónustu þurfi Klíníkin ekki neitt leyfi frá heilbrigðisráðherra.

Flækja þessa máls verður ekki minni við að EL og ráðuneytið eru ekki sammála um hvað sé undir í viðræðum þeirra. EL telur sig fjalla um starfsemi Klíníkunnar í heild en ráðuneytið telur EL tala um hlut Klíníkunnar í svonefndu „biðlistaátaki“. – Klíníkin kemur ekki að því átaki segir ráðuneytið við embætti EL og ítrekar þá afstöðu sína að ekki þurfi leyfi ráðherra vegna starfsemi Klíníkunnar.

Niðurstaða Birgis Jakobssonar landlæknis er:

„Túlkun ráðuneytisins á heilbrigðislögunum gerir það hins vegar að verkum að einkarekstur og einkavæðing á sviði sérhæfðrar heilbrigðisþjónustu og sjúkrahúsþjónustu getur haldið áfram að vaxa hér á landi í skjóli samnings Sjúkratrygginga Íslands og Læknafélags Reykjavíkur og sjúklinga sem greiða fyrir aðgerðir úr eigin vasa.“

Þessu er landlæknir ósammála og þar með túlkun heilbrigðisráðuneytisins á gildandi lögum um heilbrigðismál. Telur hann að vegna túkunar ráðuneytisins á lögunum sé „vandséð hvernig heilbrigðisyfirvöld geta haft stjórn á því hvert opinbert fjármagn rennur til heilbrigðismála og hvaða rekstrarform verða ríkjandi í íslensku heilbrigðiskerfi“.

Úr ágreiningi um efni laga verður ekki leyst nema af dómstólum.

Sú spurning vaknar hvort heilbrigðisráðherra ætlar að beita sér gegn samningum Sjúkratygginga Íslands við Klíníkina þótt ráðneyti ráðherrans telji Klíníkina starfa í samræmi við lög og reglur. Beiti ráðherrann sér á þann hátt kann hann að gerast sekur um valdníðslu

Þetta álitaefni verður að skýra og leysa. Landlæknir leggur spilin á borðið á skýran hátt. Hann er andstæður einkaframtaki á borð við það sem birtist í Klíníkinni en verður að fara að lögum. Heilbrigðisráðherra verður einnig að gera það. Óvissan er vegna þess að enginn veit hvort hann þori ekki að horfast í augu við það.

Þingmenn tala út og suður og láta eins og þeirra hlutverk sé að kvarta og argast í ráðherra vegna laga sem gilda vegna þess að alþingismenn samþykktu þau.