10.6.2021 7:24

Land á færri hendur

Ferlinu sem hófst 2019 til að nútímavæða lög um eignarhald á íslensku landi er alls ekki lokið. Það er viðvarandi og sífellt mikilvægara viðfangsefni.

Stýrihópur um heildstæða löggjöf og stjórnsýslu varðandi jarðir, land og aðrar fasteignir sem forsætisráðherra skipaði í júní 2020 skilað 28. maí 2021 lokaskýrslu sinni. Markmið með starfi hópsins var að stuðla að því að nýting lands og réttinda sem því tengjast sé hagað í samræmi við landkosti og með hagsmuni samfélagsins og komandi kynslóða að leiðarljósi, að teknu tillit til efnahagslegra, félagslegra og menningarlegra sjónarmiða.

Starf hópsins er liður í áralöngu ferli sem hófst haustið 2019 þegar Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra setti af stað vinnslu frumvarps um breytingar á ýmsum lögum er varða eignarráð og nýtingu fasteigna sem samþykkt var á Alþingi sumarið 2020 og varð að lögum nr. 85/2020.

Má meðal annars rekja áhugann á nýju lagasetningunni til gagnrýni á að útlendingar eignist hér mikið land í óljósu nýtingarskyni. Ofurfjárfestingar í landi vekja athygli og umræður víðar en hér. Má þar meðal annars vísa til þess að margir spurðu sig hvers vegna auðmaðurinn Bill Gates væri orðinn stærsti eigandi landbúnaðarlands í Bandaríkjunum þegar tölur um það birtust í janúar 2021. Þá var hann sagður eiga 240.000 ekrur af landbúnaðarlandi eða 97.1245 ha.

42983468_2301778603182933_8214306733795835904_nBill Gates er stærsti eigandi landbúnaðarlands í Bandaríkjunum.

Í umræðum sem urðu þegar þessar fréttir um Bills Gates birtust kom fram að sama þróun blasti við þegar litið væri til eignar á landi og fjármagni, verðmætin færðust sífellt á færri hendur. Þetta leiddi til meiri einhæfni í framleiðslu, stangaðist á við markmið um líffræðilegan fjölbreytileika, samhliða því sem verksmiðjubúskapur ykist til að auka arðsemi. Í einni skýrslu segir að eitt prósent af býlum heims ráði yfir 70% landbúnaðarlands. Fækkun smábænda á kostnað stórbýla hefur undanfarin ár verið mest í Bandaríkjunum.

Tillögurnar sem stýrihópurinn afhenti Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra á dögunum snúa einmitt að lögum og reglum sem varða jarðeignir og skráningu lands, samþykki sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra vegna kaupa á landi í ákveðnum tilvikum og upplýsingagjöf til Skattsins um endanlegt eignarhald tiltekinna lögaðila sem eiga land.

Í tilkynningu forsætisráðuneytisins segir að markmiðið með tillögum stýrishópsins sé að styrkja forsendur fyrir nánari umræðu, stefnumótun eða ákvarðanatöku og megi þar nefna rýni á fjárfestingum í innviðum, landnýtingu og vægi landbúnaðar, viðhald byggðar og ræktanlegs lands og skilyrði um búsetu eða nýtingu. Þar sé m.a. leitað svara við spurningum um gagnsæi, samræmi í löggjöf og stjórnsýslu, settar fram hugmyndir um næstu skref og vakin athygli á álitamálum er þessa þætti varða.

Augljóst er að enn er mikið verk óunnið á þessu sviði. Í gær var hér vakið máls á skorti á lagareglum um heimildir stjórnvalda til að skima erlendar fjárfestingar áður en heimild er veitt fyrir þeim. Unnt er að setja í lög sérstök skilyrði vegna fjárfestinga í landi. Verðmæti íslensks lands á aðeins eftir að aukast og einnig gildi þess í þágu fæðuöryggis þjóðarinnar og líffræðilegs fjölbreytileika.

Ferlinu sem hófst 2019 til að nútímavæða lög um eignarhald á íslensku landi er alls ekki lokið. Það er viðvarandi og sífellt mikilvægara viðfangsefni.