26.6.2017 10:21

Læknaprófessorar vilja stjórn yfir Landspítalann

Undir lok maí stökk Steingrímur J. Sigfússon upp á nef sér á alþingi vegna umræðna um stjórn yfir Landspítalanum. Nú hvetja sex læknaprófessorar til þess að spítalanum verði skipuð stjórn.

Björn Rúnar Lúðvíksson, Helga Ágústa Sigurjónsdóttir, Guðmundur Þorgeirsson, Pálmi V. Jónsson, Sigurður Guðmundsson og Steinn Jónsson, prófessorar við Landspítala og læknadeild Háskóla Íslands skrifa grein um málefni Landspítalans í Morgunblaðið í dag.

Tilefnið er hugmyndin um að skipa Landspítalanum sérstaka stjórn sem kom til umræðu fyrir nokkrum vikum og varð tilefni þess að Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG, sagði í þingsal:

„Ég vil gera hér að umtalsefni það sem ég kýs að kalla ógeðfellda aðför stjórnarliða að Landspítalanum – háskólasjúkrahúsi. Í ljós kemur að stjórnarliðar hafa bak við tjöldin verið að kokka með sér hugmyndir um að setja einhvers konar pólitíska stjórn eða yfirfrakka á stjórnendur Landspítalans. Það er greinilegt að nýjum valdhöfum líkar ekki að Landspítalinn – háskólasjúkrahús og stjórnendur hans hafa gert það sem þeim ber; þeir hafa upplýst þing og þjóð um hina raunverulegu stöðu Landspítalans. Það fellur ekki vel í kramið hjá nýjum valdhöfum sem þó hafa flestum meira talað um fagleg vinnubrögð, gagnsæi og annað í þeim dúr. Það á að setja þöggunarnefnd yfir stjórnendur Landspítalans og þeir eiga að hætta að koma og kynna sín mál hér fyrir fjárveitingavaldinu o.s.frv. Það er það sem fram hefur komið í þessum ræðuhöldum.

Haft er eftir hæstv. fjármálaráðherra að öll alvörufyrirtæki hafi stjórn, öll alvörufyrirtæki. Það er undarlegt viðhorf. Er Landspítalinn bara eitthvert hf. úti í bæ, bara fyrirtæki? Nei, Landspítalinn er móðurstöð í íslenska heilbrigðiskerfinu og Landspítalinn er háskólasjúkrahús, hann er akademísk stofnun. Á líka að setja pólitíska stjórn yfir akademískt frelsi Landspítalans – háskólasjúkrahúss? Hvert eru menn hér að fara?“

Að rætt hafi verið um „pólitíska stjórn“ á Landspítalanum var mælskubragð hjá ráðherranum fyrrverandi og stjórnmálamanninum til að ala á tortryggni í garð ráðherra og stjórnmálamanna. Á alþingi vara menn í stjórnarandstöðu gjarnan mjög við að ráðherrar skipi menn í stjórnir. Í Morgunblaðinu segja prófessorarnir sem starfa á Landspítalanum:

„Sterk stjórn talar máli sjúkrahússins út á við en beinir einnig áhrifum sínum inn á við og stuðlar að því að allir lykilþættir starfseminnar njóti sín; þjónusta, menntun og vísindi.

Eftir sameiningu sjúkrahúsanna í Reykjavík árið 2000 varð grundvallarbreyting á þessari skipan en þá færðist öll stjórnunarábyrgð til framkvæmdastjórnar og forstjóra. Síðan þá hafa fagstéttirnar á spítalanum í reynd ekki átt neina beina aðkomu að yfirstjórn spítalans en öll ákvarðanataka og ábyrgð var færð í hendur forstjóra, sem er ráðinn af heilbrigðisráðherra. Forstjóranum er falið að skipa alla sína næstu stjórnendur í framkvæmdastjórn sem hefur bæði stefnumótandi, eftirlits-, framkvæmdar- og rekstrarhlutverki að gegna. Undirrituð hafa ekki vitneskju um að nokkrum forstjóra eða framkvæmdastjórn sé falið svo margþætt og valdamikið hlutverk á háskólasjúkrahúsum í nágrannalöndum okkar. [...]

Á undanförnum árum hefur borið á vaxandi óánægju meðal starfsfólks og ágreiningi milli fagstétta og yfirstjórnar. Segja má að stjórnunarlegur ágreiningur hafi byrjað fljótlega eftir sameininguna og hafi magnast við seinni stjórnkerfisbreytingar og náð hámarki við þær þrengingar sem harkalegur niðurskurður hefur haft í för með sér. [...] Í umfangsmiklum starfsumhverfiskönnunum hefur komið fram mikil almenn óánægja með stjórnkerfi Landspítalans meðal allra starfsstétta hans. Fagfólkið upplifir sig langt frá stjórnendum og jafnvel forstöðumenn fræðigreina hafa litla aðkomu að stefnumótandi ákvarðanatöku. Því teljum við ljóst að núverandi stjórnkerfi Landspítala hafi ekki reynst vel og að brýnna úrbóta sé þörf. Vandinn er ekki bundinn við persónur heldur er hann kerfislægur og liggur í því hvernig kerfið er uppbyggt í kringum óskorað vald forstjórans. [...]

Við leggjum til að æðsta vald innan Landspítala verði í höndum fjölskipaðrar stjórnar með sterkri aðkomu fagstéttanna. Stjórnin hafi eftirfarandi þrjú hlutverk: (a) að ráða forstjóra, (b) að hafa eftirlit með störfum forstjóra og (c) að móta heildarstefnu fyrir stofnunina. Tillaga þessi er í anda góðra stjórnarhátta í rekstri fyrirtækja og stofnana, þar sem áhersla er lögð á aðgreiningu á stefnumótunarvaldi og framkvæmdavaldi.“

Greinarhöfundar leggja til að ráðherra heilbrigðismála skipi stjórnina en þar verði leitað að jafnvægi milli fagstétta. Hér er kynnt rökstudd tillaga um nýja stjórnarhætti á Landspítalanum. Hún á ekkert skylt við hryllingsmynd Steingríms J. Sigfússonar sem hann málaði af alkunnri pólitískri heift.