1.6.2023 9:58

Kristrún og Inga treysta ríkisstjórninni

Það sjá allir sem skoða þennan málatilbúnað Kristrúnar Frostadóttur og Ingu Sæland að þær hafa ákveðið að leggja á flótta undan ábyrgðinni sem á þeim hvílir.

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, treystir sér ekki til að taka forystu á alþingi til að fylgja fram þeirri skoðun sinni að alþingismenn og aðrir, sem lögum samkvæmt eiga að fá um 6% launahækkun 1. júlí, fái hana ekki. Það sé í höndum ríkisstjórnarinnar að beita sér gegn henni. Til þessa hefur flokksformaðurinn sagt að hún treysti ríkisstjórninni ekki til neinna góðra verka.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, var í Kastljósi ríkissjónvarpsins að kvöldi 31. maí og varði þingsályktunartillögu flokksins um að ríkisstjórninni verði falið að leggja fram frumvarp sem mælir fyrir um frestun á fyrirhuguðum launahækkunum æðstu ráðamanna. Mátti helst skilja Ingu á þann veg að lagasvið alþingis, það er starfsmenn þingsins, hefðu ráðið því að Flokkur fólksins færi þessa leið, hún væri fljótlegri en að Inga sjálf og þingflokkur hennar legðu fram þetta frumvarp.

Til að tryggja öryggi tölvu og gagna í netheimum er gjarnan hvatt til þess að notuð séu tvö auðkenni. Með því sé ólíklegra að takist að brjótast inn í tölvuna og valda þar tjóni. Flokkur fólksins velur leið tveggja auðkenna þegar hann leggur til atlögu gegn launahækkun þingmanna, fyrst verði samþykkt þingsályktun og síðan lagabreyting. Flokksformaðurinn segir að þetta sé auðveldari leið en að ganga beint í málið með tillögu til lagabreytingar. Kenningin um tafir með tvöföldu auðkenni á greinilega ekki við á alþingi.

Það sjá allir sem skoða þennan málatilbúnað Kristrúnar Frostadóttur og Ingu Sæland að þær hafa ákveðið að leggja á flótta undan ábyrgðinni sem á þeim hvílir eins og öðrum þingmönnum þegar um er að ræða réttinn til að leggja fram tillögu um breytingu á gildandi lögum um laun þingmanna.

1313308

Leitin að fyrirkomulagi um launaákvarðanir fyrir þingmenn og háttsetta opinbera embættismenn hefur verið löng og ströng. Hvað eftir annað hefur orðið hvellur í samfélaginu vegna tímasetninga við kjaraákvarðanir fyrir þá sem undir lög um þetta efni falla. Að þessu sinni er bæði aðferðin við að reikna út launahækkunina lögbundin og einnig hvenær hún kemur til framkvæmda, þ. e. 1. júlí nk.

Á meðan beðið er eftir hvað gerist í þessu launamáli hjá ríkisstjórninni sem nýtur óskoraðs trausts stjórnarandstöðunnar má benda á frétt Vísis sem er dagsett 31. maí um að á fyrsta ársfjórðungi 2023 hafi landsframleiðsla hér aukist að raungildi um 7%. Hagvöxtur á Íslandi sé því mun meiri en víðast hvar annars staðar á Vesturlöndum. Atvinnulífið sé „á blússandi siglingu“ og mikil eftirspurn eftir vinnuafli og þúsundir útlendinga hafi verið kallaðir til starfa hér. Verðbólgan sé eina vandamálið.

Á sama tíma og þessi „blússandi sigling“ er hér dróst landsframleiðsla í Þýskalandi saman um 0,3% fyrstu þrjá mánuði ársins en samdrátturinn var 0,5% í lok árs 2022. Það er því efnahagslægð eða samdráttur í Þýskalandi. Spár í Bretlandi benda einnig til efnahagslegs samdráttar þar.

Hér er glímt við velmegunarvanda og stjórnarandstaðan veðjar þrátt fyrir allt á að ríkisstjórnin hafi ráð gegn honum.