8.11.2021 9:39

Klukkan tifar á kjörbréfanefndina

Forseti lýðveldisins stefnir alþingi saman eigi síðar en tíu vikum eftir almennar alþingiskosningar. Þær fóru fram 25. september, nú eru sex vikur liðnar af þessum tíu. Tímabært er að líta á klukkuna.

Í dag er 8. nóvember. Á forsíðu Morgunblaðsins birtist þessi frétt:

„Undirbúningsnefnd fyrir rannsókn kjörbréfa hefur nú fundað alls tuttugu og tvisvar frá því hún kom fyrst saman 4. október, þrisvar til fimm sinnum í viku allar götur síðan.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknar og nefndarmaður, segir að í raun sé enn sé nokkur vinna eftir. „Hvert skref vinnst hægt. Leggja þarf lokahönd á að afla upplýsinga um málavöxtu og síðan tekur við túlkun á lögum sem við eiga.“

Sú málavaxtarlýsing sem send var út á þá sem komið hafa fyrir nefndina fyrir helgi séu drög og von sé á fullunninni lýsingu eftir að viðstaddir aðilar hafi fengið að fara yfir hana. Líklega muni sú lýsing liggja fyrir fyrri hluta vikunnar og verður birt opinberlega. Þá tekur við hið eiginlega lögfræðilega mat.“

Hér skal ekkert fullyrt um hvað þessi stutta frétt segir í raun.

Af tilvitnuðum orðum má ráða að nefndin hafi lokið gagnasöfnun, rannsóknarþætti málsins. Teknar hafi verið skýrslur og þær séu til umsagnar eða andmæla hjá þeim sem nefndarmenn yfirheyrðu. Beðið sé viðbragða þeirra sem hlut eiga að máli, líklega sé von á þeim fyrri hluta þessarar viku. Virðist ætlun nefndarinnar að birta þessi gögn og setjast síðan yfir lögfræðilegan þátt málsins.

Domkirkjan_turnDómkirkjuklukkan glymur við þingsetningu. Vonandi dregur brátt að henni.

Nefndin vinnur starf sitt af kostgæfni. Tíminn sem starfið tekur og allt umstangið ýtir þó undir þá skoðun að eitthvað meira búi undir en að upplýsa hvort umbúnaður kjörgagna í Borgarnesi gefi tilefni til kosninga- eða talningasvindls á fáeinum klukkustundum þar til atkvæði voru talin að nýju að ábendingu landskjörstjórnar.

Vonandi tekur nefndin sjálfstæða afstöðu til þess hvort lokatölur ráðist og þar með úrslit kosninga þegar kosningavöku ríkissjónvarpsins lýkur. Þessu er haldið fram af þeim sem vilja ekki að lokatölurnar úr Borgarnesi ráði.

Þá hlýtur nefndin að taka af skarið um hvort skylt sé að innsigla kjörgögn á meðan hlé er gert á talningu að loknu næturverki og ætlunin að ljúka verkinu nokkrum klukkustundum síðar. Snýr krafan að innsiglun ef til vill aðeins að varðveislu kjörgagna að talningu lokinni? Var talningu í Borgarnesi lokið áður en henni lauk?

Sé tilgangur nefndarformanns að halda þannig á málum að algjör samstaða verði um niðurstöðuna að lokum er hætt við að nefndarstarfinu ljúki aldrei.

Í starfi þingnefnda er aldrei unnt að binda hendur neins. Þingmaður hefur stjórnarskrárvarinn rétt til þess að fara að eigin sannfæringu hvað sem setu hans í þingnefnd líður. Afleiðing sérstöðu er pólitískur ágreiningur. Hvorki andmælaréttur að stjórnsýslulögum né lögfræðilegt mat á framlögðum gögnum dugar til að tryggja pólitíska samstöðu.

Að lokum hlýtur þetta mál að koma til atkvæða í þingsalnum, vonandi fyrr en seinna. Í 22. gr. stjórnarskrárinnar segir að forseti lýðveldisins stefni alþingi saman eigi síðar en tíu vikum eftir almennar alþingiskosningar. Þær fóru fram 25. september, nú eru sex vikur liðnar af þessum tíu. Tímabært er að líta á klukkuna.