12.12.2023 9:44

Kerfið fær PISA-falleinkunn

PISA-prófin halda gildi sínu. Séu þau mælikvarði á ágæti kerfa eins og fulltrúi menntastofnunar segir hefur íslenska kerfið fengið falleinkunn.

Á ruv.is 11. október segir Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands (KÍ), ekki á döfinni að gera samræmd próf að lykilþætti í inntöku í framhaldsskóla aftur. Það henti ekki því kerfi sem við búum við. Hugsanlega eigi börn í dag erfiðara með að halda athygli í löngum prófum en áður var.

Þessi yfirlýsing kemur heim og saman við þá skoðun að enginn veltir því fyrir sér hvaða skoðanir stjórnmálamenn, kjörnir fulltrúar á alþingi og sveitarstjórnum, hafi á skólastarfi og þeim árangri sem þar næst. Foreldrar eru einnig utan við ákvarðanir af þessu tagi. Þær eru í höndum kennara og menntastofnunar sem neitar að láta skólum í té upplýsingar um PISA-niðurstöður, prófin séu tekin fyrir kerfið og það eigi upplýsingarnar.

Ppiiimages

Samræmd próf vegna inngöngu í framhaldsskóla voru aflögð árið 2009. Framkvæmd samræmdra prófa í fjórða, sjöunda og níunda bekk klúðraðist fyrir skömmu í kerfinu. Formaður KÍ segir að „tæknilegir örðugleikar“ hafi orðið þessum prófum að falli og „ekki sé búið að ákveða hvort þau verði tekin upp aftur“. Í frásögn ruv.is kemur ekki fram hver taki þá ákvörðun.

Formaður KÍ telur að þessi samræmdu próf geti verið gagnleg. Það sé nauðsynlegt „að eiga mælikvarða á skólakerfið okkar og samræmd próf voru auðvitað hluti af þeim mælikvörðum sem við vorum að vinna með,“ segir hann og það „gæti klárlega hjálpað okkur við að fá betri upplýsingar um það hvernig okkur er að takast til inni í skólakerfinu“.

Ekki kemur fram hverjir það eru sem eigi að njóta góðs af þessum upplýsingum, aðeins kerfið eða einnig nemendur og foreldrar eða forráðamenn þeirra. Það er mikill misskilningur að það stuðli að betra skólastarfi að kerfið eitt sitji að upplýsingum sem aflað er með prófum. Þær á að birta opinberlega eins og OECD gerir með niðurstöður í PISA-prófunum. Sé það viðurkennd og viðtekin regla að umbætur í skólastarfi ráðist af því að kerfið fari leynt með upplýsingar í prófum færi OECD með PISA-niðurstöðurnar sem leyndarmál.

Á ruv.is er Magnús Þór Jónsson spurður hvort hugsanlega eigi grunnskólanemendur nú erfitt með að halda athygli prófi sem sé jafnlangt og PISA-prófið.

Hann segir að þetta hafi verið rætt á fundi hans með fulltrúum OECD fyrr á árinu. Víða um heim, ekki aðeins á Íslandi, hafi menn verið að flytja sig „frá stórum, miðlægum prófum sem eru með langa og mikla þekkingu á bak við sig“. PISA-prófið sé auðvitað þannig próf, börn núna „séu ekki eins vön því að vera svona lengi í prófum miðað við það sem var upp úr aldamótum“.

Eðlilegt er að brugðið sé ljósi á sem flesta þætti sem varða PISA-prófin. Af því sem hér er nefnt er ljóst að markvisst eða vegna „tæknilegra örðugleika“ hefur verið horfið frá því að nota mælanlegar aðferðir, samræmd próf, til að átta sig á árangri í íslensku skólastarfi.

PISA-prófin halda gildi sínu. Séu þau mælikvarði á ágæti kerfa eins og fulltrúi menntastofnunar segir hefur íslenska kerfið fengið falleinkunn.