28.6.2021 11:22

Kerfi í kreppu miðstýringar

Sérkennilegt við þessa gamalkunnu um kreppu í heilbrigðiskerfinu er að nú sem fyrr er spjótum beint að einstaklingum, ráðherrum eða stjórnendum stofnana, en ekki að kerfinu sjálfu.

Þegar baráttan við COVID-19-faraldurinn hófst snemma árs 2020 var rætt um að jafna þyrfti kúrvuna með öllum tiltækum ráðum. Yrði það ekki gert kynni heilbrigðiskerfið að brotna undan álaginu. Hvatningunni um sameiginlegt átak til að ná þessu markmiði var tekið af miklum skilningi. Nú þegar ljóst er að heilbrigðiskerfið stóðst áraunina birtast enn fréttir um að það sé í raun að brotna. Í samtali í dag 28. júní við Sigurð Boga Sævarsson, blaðamann Morgunblaðsins, segir Theódór Skúli Sigurðsson, svæfingalæknir á Landspítalanum, að læknar þar séu langþreyttir og tilfinning þeirra sé sú að ekki sé hlustað á sjónarmið þeirra þegar varað sé við hættuástandi, þeir þurfi aukið svigrúm til að mæta stórslysi,

Theódór Skúli er í forsvari þeirra 985 lækna sem í liðinni viku afhentu fulltrúum heilbrigðisráðuneytisins undirskriftir þar sem skorað er „á stjórnvöld að axla ábyrgð á stöðunni í heilbrigðiskerfinu“. Efna beri fyrirheit um aukið fjármagn til alls heilbrigðiskerfisins og varanlegar lausnir verði fundnar í öldrunarþjónustu. Skortur á þeim stífli allt gangvirki spítalans. Hugarfarsbreyting við rekstur Landspítalans sé nauðsynleg.

„Læknar eru leiðtogar með hugmyndir og mikilvægt er að virkja þá til meiri áhrifa. Læknar eru langþreyttir og tilfinningin sú að ekki sé hlustað á sjónarmið okkar þegar varað er við hættulegu ástandi,“ segir Theódór Skúli, sjónarmið lækna hafi ekki skilað sér til stjórnvalda. Slíkt kunni ekki góðri lukku að stýra.

Landspítalinn hafi ekki nægan sveigjanleika til þess að skilja nægjanlega vel á milli bráðrar meðferðar og þjónustu sem skipulögð er fyrirfram. Bráðar aðgerðir hafi oftast forgang svo öðrum sé frestað.

Skilaboð lækna, um erfið starfsskilyrði, eru grafalvarleg sé litið til aðstöðu starfsfólks og þess að núverandi ástand veldur stöðnun og jafnvel afturför, segir heilbrigðisráðuneytið um yfirlýsingar og undirskriftir læknanna. Sjónarmið þeirra séu tekin alvarlega þótt þau séu ekki algild lýsing á heilbrigðiskerfinu. Útgjöld til heilbrigðismála sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu hafi verið aukin úr 7,4% árið 2017 í 9,3% skv. fjárlögum 2021. Á sama tíma hafi fjárframlög til Landspítala aukist um 14% á föstu verðlagi. Ekki sé hægt að byggja á óbreyttu skipulagi. Leita þurfi nýrra leiða og lausna svo fjármunir nýtist sem best.

IMG_3325Myndin er frá 3. maí 2021 af risavöxnum framkvæmdum við Landspítalann við Hringbraut.

Sérkennilegt við þessa gamalkunnu kreppu í heilbrigðiskerfinu er að nú sem fyrr er spjótum beint að einstaklingum, ráðherrum eða stjórnendum stofnana, en ekki að kerfinu sjálfu. Við blasir að þetta hlýtur að vera kerfislægur vandi vegna miðstýringar og stíflugarða sem óhjákvæmilega fylgja ríkiseinokun eins og ræður ferðinni í íslenskum heilbrigðismálum. Á meðan ekki eru ræddar nýjar leiðir og minni opinber miðstýring verða bænaskrár áfram sendar reglulega í heilbrigðisráðuneytið.

Kerfislægi vandinn birtist nú orðið í öllum greinum heilbrigðisþjónustunnar. Verði ekki á honum tekið og frjálsræði aukið til að framtak, þekking og dugnaður einstaklinga nýtist betur en nú spólar kerfið áfram í sama farinu.