18.7.2019 10:08

Kaup og sala jarða

Jarðalögunum var breytt árið 2004 og meðal annars fellt úr þeim ákvæði um forkaupsrétt sveitarfélaga á jörðum. Fyrir breytingunni voru færð gild rök.

„Jarðakaup auðmanna voru mikið í umræðunni í fyrrasumar og boðaði ríkisstjórnin aðgerðir til að takmarka kaup þeirra á jörðum hér á landi,“ sagði á ruv.is miðvikudaginn 17. júlí. Af þessum orðum mætti ætla að fyrir dyrum stæði að skilgreina hverja beri að telja „auðmenn“ og setja síðan reglur um hvernig jarðakaupum þeirra skuli háttað.

Jón Steinar Gunnlaugsson hrl. segir í grein í Morgunblaðinu í dag (18. júlí):

„Þegar við ræðum hins vegar um heimild útlendinga til að eignast fasteignir á Íslandi [en ekki fasteignakaup Íslendinga erlendis] kemur oft annað hljóð í strokkinn. Þá er eins og sumir telji að fullveldi okkar sé ógnað. Setja verði reglur sem takmarka þetta eða jafnvel banna. Þetta er auðvitað misskilningur. Eftir sem áður myndu íslenskar lagareglur gilda um þessar fasteignir og lögskipti á grundvelli eignarréttar að þeim. Fullveldi þjóðarinnar yrði á engan hátt ógnað.

Menn ættu að átta sig á því að með kröfum um bann við sölu t.d. jarðnæðis til útlendinga er verið að láta eigendur þessara eigna bera kostnaðinn af heimóttarlegum sjónarmiðum þeirra sem slíkar kröfur gera. Vera má að maður með erlendan ríkisborgararétt sé fús til að greiða miklu hærra verð fyrir viðkomandi eign heldur en hugsanlegir íslenskir kaupendur.

Og þá skal spurt: Höfum við mörlandarnir siðferðilega heimild til að láta eigendur landareigna bera kostnaðinn af þjóðernisrembingi okkar?

Svari sá sem svara vill.“

IMG_0090

Jarðalögunum var breytt árið 2004 og meðal annars fellt úr þeim ákvæði um forkaupsrétt sveitarfélaga á jörðum. Fyrir breytingunni voru færð gild rök en í dag segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, í Morgunblaðinu:

„Við erum að skoða hvaða breytingar þurfi að gera á ólíkum lagabálkum, því breytingarnar sem gerðar voru upp úr aldamótum, árin 2003 og 2004, tóku niður allar eðlilegar girðingar hvað þetta varðar og þessu verðum við að breyta.“

Unnið er að frumvarpi vegna þessa máls á vegum Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Verður það væntanlega rætt á næsta þingi.

Íslenska ríkið er stærsti landeigandinn með um 440 jarðir á sinni hendi. Mótuð hefur verið eigendastefna fyrir þær og má kynnasér hana hér. 

Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í Morgunblaðinu 17. júlí að ríkið hefði engan hug á að selja jarðir sínar til að stuðla að „jarðasöfnun innlendra og/ eða erlendra auðmanna“. Haraldur sagði einnig:

„Sveitarfélög fara með skipulagsvaldið og hafa margvísleg úrræði til að hafa raunveruleg áhrif á þróun byggðar og eignarhalds á jörðum. Hvers vegna er ekki umræða um að sveitarfélögin beiti þeim? Úrræði sem m.a. felast í valdi til skattlagningar og skilgreiningar á þjónustu við fasteignaeigendur.“

Það kæmi ekki á óvart að í lögum væru allar heimildir til að setja skorður við jarðasölu sem féllu innan þeirra marka sem leiddi til til víðtækrar sáttar. Yfirvöld kysu hins vegar að beita þeim ekki þegar á reyndi.