30.9.2022 9:17

Katrín hefur rætt herstöð við NATO

Það sem forsætisráðherra segir um viðtöl sín á vettvangi NATO um þörfina fyrir herstöð hér á landi er stórfrétt.

Þorgerður Katín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, átti frumkvæði að sérstakri umræðu um öryggis- og varnarmál á alþingi fimmtudaginn 29. september 2022. Umræðan stóð í um það bil klukkustund og er ástæða til að halda til haga því sem þar kom fram hjá tveimur þingmönnum Vinstri grænna (VG), Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra, en til hennar beindi Þorgerður Katrín máli sínu, og Bjarna Jónssonar, formanns utanríkismálanefndar alþingis.

KEFIMG_0497_1664529358583Frá öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli.

Á liðnu sumri samþykkti forsætisráðherra grunnstefnu NATO í Madrid 29. júní og í Osló 15. ágúst stóð hún að sameiginlegri öryggis- og varnarmálayfirlýsingu norrænu forsætisráðherranna. Hvoru tveggja eru grundvallarskjöl sem lengi verður til vitnað.

Eins og vitað er hefur VG lýst andstöðu við aðild Íslands að NATO og varnarsamstarfið við Bandaríkin. Óhætt er að segja að við annan tón kveði nú um þessi mál í ræðum flokksformannsins, Katrínar, og talsmanns flokksins í utanríkismálum á þingi Bjarna Jónssonar. Hér verða birtir kaflar úr ræðum þeirra því til stuðnings.

Fyrri þingræða Katrínar Jakobsdóttur 29. september 2022:

„Hv. þingmaður [Þorgerður Katrín] spyr um orð mín um grunnstefnu Atlantshafsbandalagsins. Ég tel að hún vitni til þess að ég lýsti því yfir réttilega að aukinn viðbúnaður Atlantshafsbandalagsins vegna innrásarinnar [í Úkraínu] hefur fyrst og fremst verið í austurhluta Evrópu. Það eru ákvarðanir sem teknar hafa verið á vettvangi Atlantshafsbandalagsins af leiðtogum, en grunnstefnan er hins vegar í raun og veru grunnstefna sem er sett til lengri tíma. Þar beittum við Íslendingar okkur fyrir því að hafa fjölþættari mál undir, má segja. Við höfum t.d. beitt okkur sérstaklega fyrir því að loftslagsvá, fæðuöryggi, jafnréttismál o.fl. séu hluti af grunnstefnunni og ég vil segja að það hefur gengið með ágætum að koma þeim áherslum inn í grunnstefnuna.“

Forsætisráðherra telur með öðrum orðum að ríkisstjórn hennar hafi „með ágætum“ tekist að setja svip sinn á grunnstefnu NATO sem hún styður heilshugar. Í umræðum um Madrid-skjalið kemur fram að líta ber á það sem annað mikilvægasta grunnskjal NATO-samstarfsins frá því að sjálfur stofnsáttmáli bandalagsins, Norður-Atlantshafssáttmálinn, var samþykktur og undirritaður í Washington 4. apríl 1949.

Bjarni Jónsson, formaður utanríkismálanefndar, sagði á alþingi 29. september 2022:

„Við eigum að bregðast við nýjum veruleika af yfirvegun, stillingu og umfram allt festu með hagsmuni lands og þjóðar forgrunni. Það gerum við best í samstarfi við þær þjóðir og þau lönd sem standa okkur næst, vinaþjóðir. Tvíhliða varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna stendur á traustum grunni. Við erum aðilar að Atlantshafsbandalaginu þar sem rödd Norðurlandaþjóða mun verða sterkari á næstu árum, þær eru um leið okkar helstu vinaþjóðir sem við eigum mikla samleið með og hafa umfram aðrar talað fyrir friðsamlegum lausnum deilumála. Við erum að treysta varnir okkar og viðbúnað vegna nýrra ógna. Fjölþáttaógnir, netöryggi, mögulegar árásir á grunninnviði, að grunninnviðir standi sem best af sér náttúruhamfarir, slys og umhverfisslys jafnvel af mannavöldum eða hryðjuverk af því tagi, fæðuöryggi og grunnviðbúnaður eins og olíubirgðir í landinu og aðrir lykilþættir aðfangakeðju sem halda grunninnviðum gangandi á átaka- eða hamfaratímum.“

Þarna fer ekkert á milli mála. Ræðumaðurinn vísar til tveggja grunnstoða undir öryggi þjóðarinnar: varnarsamningsins og aðildarinnar að NATO.

Sérstöku umræðunni um öryggis- og varnarmál á alþingi 29. september 2022 lauk með ræðu Katrínar Jakobsdóttir forsætisráðherra. Hún sagði:

„Aðeins um samskiptin við Norðurlöndin. Ég vil bara upplýsa um það að fram undan er fundur norrænna varnarmálaráðherra á vettvangi NORDEFCO samstarfsins vegna atvikanna í gasleiðslunum [það er vegna skemmdarverksins á Nord Stream 1 og Nord Stream 2 gasleiðslunum sem unnin voru skammt frá Borgundarhólmi 26. september 2022]. Þetta er okkur mjög mikilvægt.

Hvað varðar viðveru eða opnun á einhvers konar herstöð þá höfum við ekki metið það sem forgangsatriði í okkar vörnum að hér sé herstöð. Það er nokkuð sem ég hef m.a. rætt á vettvangi Atlantshafsbandalagsins og ekki fengið kröfu um það þaðan.“

Þarna tekur forsætisráðherra af skarið um hve þriðja stoðin í öryggis- og varnarstefnunni, norræna stoðin, skiptir miklu. Er það í fullu samræmi við yfirlýsinguna sem hún samþykkti í Osló 15. ágúst 2022.

Það sem forsætisráðherra segir um viðtöl sín á vettvangi NATO um þörfina fyrir herstöð hér á landi er stórfrétt. Hún metur hana ekki sem „forgangsatriði“ en útilokar ekki. Skilur eftir opið hvað kunni að gerast komi ósk frá NATO.

Þegar bandaríska varnarliðið kom hingað í maí 1951 á grundvelli varnarsamningsins sem þá var gerður var aðdragandinn einmitt sá að krafa eða ósk kom um það frá hermálafulltrúum NATO, ekki væri unnt að tryggja öryggi lands og þjóðar með öðrum úrræðum.